Lífið

Uppistandsæði skekur íslensku þjóðina

Guðrún Ansnes skrifar
Rúnar Freyr Gíslason segir mikilvægt að vera óttalaus þegar uppistand er flutt.
Rúnar Freyr Gíslason segir mikilvægt að vera óttalaus þegar uppistand er flutt.
„Þú þarft alveg að vera dálítið klikkaður,“ segir Rúnar Freyr Gíslason, einn dómaranna í Open Mic, eða Orðið er frjálst, keppni sem haldin er í tengslum við Reykjavík Comedy Festival og fer fram 23. október næstkomandi.

„Hugmyndin er sú að fólk sendi inn myndbönd af sér á visir.is, þar sem þau safnast saman og dómnefndin fer yfir. Þar verða sigtaðir úr tuttugu grínistar og lesendur visir.is fá svo það verkefni að velja átta bestu úr. Í framhaldinu munu þeir stíga sín fyrstu skref í uppistandsbransanum, í sjálfu Silfurbergi í Hörpu,“ útskýrir Rúnar, þó nokkuð spenntur. Auk hans munu þeir Jóhannes Haukur Jóhannesson og Ísleifur B. Þórhallsson skipa dómnefnd, en Jóhannes Haukur mun að auki sinna hlutverki kynnis í Silfurbergi.

Aðspurður um hvaða kostum ­grínistar þurfi að búa yfir, ætli þeir sér að taka þátt í fjörinu, segir Rúnar allra mikilvægast að vera óttalaus.

„Að fara með sitt eigið efni fyrir framan fullan sal af fólki þar sem krafa er gerð um að þú sért ógeðslega fyndinn, er ekkert grín. Ég fæ í magann bara við tilhugsunina. Ég meina, kannski hlær enginn,“ bendir hann á og segir svo alvarlegur í bragði: „En svo verður fólk að átta sig á að menn geti hæglega orðið háðir þessu, það er að segja ef vel gengur.“ Þá segir Rúnar frumlegheit skipta sköpum, að geta gripið eitthvað í daglega lífinu og bent áhorfendum á húmorinn í því sé gulls ígildi. Gerir hann ráð fyrir að úr nógu verði að moða.

„Það er eitthvert uppistandsæði í gangi á landinu núna. Hingað hafa verið fluttir inn uppistandarar hægri vinstri, og það er alltaf uppselt strax.“  


Tengdar fréttir

Ráðherrar lofa Everest

Nokkrir af ráðherrum þjóðarinnar voru staddir á frumsýningu Everest, stórmyndar Baltasar Kormáks. Lífið leitaði til ráðherranna og spurði þá hvað þeim fannst um myndina, sem hefur fengið jákvæð viðbrögð víða um heim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×