Lífið

Geitur inni í myndbandaleigu í nýju myndbandi frá Bent

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
„Baraseira er basically bara-að-segja-þér-það, þjappað niður í talmál," segir rapparinn Ágúst Bent sem sendir nú frá sér nýtt lag sem er frumsýnt hér á Vísi.

Myndbandið er vægast sagt líflegt, en í því fer Bent meðal annars í réttir. „Við skutum í Skaftholtsréttum í Gnúpverjahreppi og traktorinn á Hæl sem er þar við hliðina á. Ég hef aldrei áður farið í svona en ég dýrkaði þetta. Þarna er fólk og stemning að mínu skapi. Það eru allir svo fullir og líbó á því að enginn kippti sér sérstaklega upp við að ég væri þarna að stíga tryllingslegan dans.“

Hér má sjá myndbandið, en viðtalið heldur áfram þar fyrir neðan.





Textinn í laginu, er beittur, eins og Bent er þekktur fyrir. Hann leikur sér með formið, þegar hann þjappar orðunum „Bara að segja þér það" í „Baraseira". „Með það sem konsept er hægt að flakka úr einu í annað. En maður heldur sig við sitt, sem er rappgrobb og djamm. En ég er búinn að lofa mömmu því að næsta lag verði um eitthvað annað en dóp og drykkju. Myndbandið flakkar sömuleiðis út um allt í takt við lagið. En þemað er þó maður sem er orðinn svo erfiður að hann þarf að leita í dýrin til þess að finna einhvern sem skilur sig. Eðlið er dýrslegt"

Þetta er annað lagið sem Bent sendir frá sér á stuttum tíma, en lagið Í næsta lífi sló í gegn í sumar og hefur fengið mikið áhorf á Youtube, horft hefur verið á það í tæp 170 þúsund skipti. Bent segist einfaldlega hafa gaman að því að senda frá sér lög, að hann sé ekki að vinna í plötu. „Ég er ekkert að vinna að plötu, en ég fíla að henda út einum og einum hittara. Hvort sem það sé sóló eða ekki. En í nánustu framtíð munu koma bæði út lög með mér einum og með öðrum íslenskum tónlistamönnum. Maður fer ekki neitt fyrr en ljósin eru kveikt."

Myndbandið er þó ekki það eina fréttnæma sem gerðist þessa helgi í Skaftholtsréttum. Athygli vakti nefnilega að Gestur Einarsson frá Hæli bað kærustu sinnar, eins og Nútíminn greindi frá. Gestur hefur áður verið til umfjöllunnar hjá Vísi, en hann fólkið sem þekkir hann vel segir hann vera með skemmtilegri mönnum sem fyrirfinnast. „Já, það var helvítis ást þarna," segir Bent og bætir við: „Til hamingju Gestur og Tinna."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×