Viðskipti innlent

Ríkissaksóknari telur ekki tilefni til endurupptöku Al Thani-málsins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. vísir/vilhelm
Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, hefur skilað umsögn sinni til endurupptökunefndar vegna beiðni Ólafs Ólafssonar um að Al Thani-málið svokallaða verði tekið upp aftur. Kemur þar fram að hún telji skilyrði til endurupptöku ekki uppfyllt og því eigi að hafna beiðni Ólafs.

Ólafur Ólafsson var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti fyrir aðkomu sína að málinu en fór nokkru síðar fram á endurupptöku á þeim forsendum að í dómnum sé byggt á misskilning þegar vísað er í símtal þeirra Bjarnfreðs Ólafssonar og Eggerts Hilmarssonar.

Í símtalinu ræddu þeir um tiltekinn „Óla“ og aðkomu hans að viðskiptum Al Thani við Kaupþing. Mat Hæstiréttur það sem svo að Bjarnfreður og Eggert hafi þarna rætt um Ólaf Ólafsson en endurupptökubeiðni Ólafs byggir á því að mat Hæstaréttar sé rangt. Telur hann, og vísar í vitnisburði fyrir dómi og önnur gögn málsins, að í símtalinu hafi verið rætt um lögmanninn Ólaf Arinbjörn Sigurðsson.

Í umsögn ríkissaksóknara til endurupptökunefndar, sem fjallað er um í Viðskiptablaðinu í dag, segir að þetta mat Ólafs sé rangt. Augljóst megi ráða af samhengi símtalsins að verið sé að ræða um Ólaf Ólafsson en ekki Ólaf Arinbjörn.

Eftir að Ólafur Ólafsson fór fram á endurupptöku málsins gerðu Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson, sem einnig voru dæmdir í fangelsi vegna viðskiptanna, slíkt hið sama.


Tengdar fréttir

Segir Hæstarétt hafa ruglað saman Ólum í Al Thani-dómi

Eiginkona Ólafs Ólafssonar segir að í fjögurra og hálfs árs fangelsisdómi Hæstaréttar sé Ólafi ruglað saman við lögfræðing að nafni Ólafur. Grundvallaratriði segir lögmaður Ólafs. Þeir íhugi nú að krefjast endurupptöku.

Fara fram á endurupptöku Al Thani-málsins

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, hafa farið fram á endurupptöku Al Thani-málsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×