Lífið

Ungar athafnakonur með skýra stefnu fyrir veturinn

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Stjórn Ungra Athafnakvenna.
Stjórn Ungra Athafnakvenna.
Í dag verður fyrsti fundur vetrarins hjá Ungum athafnakonum. Þar verður kynnt dagskrá fyrir komandi misseri ásamt því að Halla Tómasdóttir, einn af stofnendum Auðar Capital, heldur fyrirlesturinn „Invest like a girl“ en hún hefur flutt erindið víða við góðar undirtektir.

Fyrir ári var stofnfundur Ungra athafnakvenna haldinn en í ár eru þær að leita að nýjum stjórnarmeðlimi.

„Dagskráin fyrir veturinn er með svipuðu sniði og seinasta ár nema mun metnaðarfyllri og með skýrari stefnu. Við erum með fleiri viðburði enda búnar að vera að undirbúa dagskrána í allt sumar. Við erum með nokkur vandamál sem við höfum viljað einblína á. Við höfum verið með fyrirlestra um samningatækni með áherslu á launamál en hugarfar í þeim málum er eitthvað sem við viljum breyta,“ segir Lilja Gylfadóttir, formaður samtakanna.

Búist er við að yfir 100 manns mæti í kvöld en viðburðurinn er opinn öllum ungum konum sem vilja kynnast störfum UAK og hlusta á fyrirlestur Höllu.

Dagskrá vetrarins hefst strax eftir tvær vikur með áhugaverðum pallborðsumræðum. „Við höldum þær í samvinnu við Íslandsbanka þar sem við fáum nokkrar konur sem hafa gert það gott í íslensku atvinnulífi. Þær ætla til dæmis að segja frá hindrunum sem þær hafa orðið fyrir, hvað þær þurftu að gera til þess að stíga yfir þær og hvort það sé eitthvað búið að breytast í dag,“ segir Lilja Gylfadóttir, formaður Ungra athafnakvenna.

Hægt er að sækja um stöðu í stjórn UAK í gegnum ungarathafnakonur@gmail.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×