Lífið

Ragnheiður Sara fagnaði sigri í Minnesota á afmælisdaginn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ragnheiður Sara tryggði sér sigurinn í síðustu greininni.
Ragnheiður Sara tryggði sér sigurinn í síðustu greininni.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir kom, sá og sigraði á Granítleikunum sem fram fóru í Minnesota í Bandaríkjunum um helgina. Sara hlaut samtals 1095 stig í keppnisgreinunum átta og vann með 99 stiga mun.

Sara hafnaði í öðru sæti í fyrstu grein mótsins og þriðja sæti í þeirri annarri. Hún hafnaði aldrei neðar en í sjöunda sæti í einstakri grein og því ljóst að einn styrkleiki hennar er hve vel hún stendur í ólíkum greinum. Samantha Briggs, sem hafnaði í 2. sæti hafnaði í 26. sæti í einni grein og varð af mörgum stigum þar. Hún fékk samanlagt 996 stig.

Sara , sem fékk 25 þúsund dollara eða jafnvirði rúmlega þriggja milljóna króna fyrir sigurinn, hefur farið á kostum undanfarna mánuði með frammistöðu sinni í Crossfit fyrir utan landsteinanna. Hún varð Evrópumeistari í Kaupmannahöfn í lok maí þar sem hún átti frábæran endasprett og stakk helstu keppinauta sína af í síðustu greinum mótsins. Þá hafnaði hún í þriðja sæti á heimsleikunum í Crossfit í Kaliforníu í júlí eftir baráttu í lokagreininni við Katrínu Tönju Davíðsdóttur sem stóð sem kunnugt er uppi sem sigurvegari.

Uppfært: Í fyrri útgáfu fréttarinnar stóð að Ragnheiður Sara hefði unnið með níu stiga mun

Ragnheiður Sara fagnar ásamt ömmu sinni í maí síðastliðnum.

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×