Lífið

Nágranna-stjarna átti erfitt með að lifa ódýrt á Íslandi

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
James á fjölmarga aðdáendur á Íslandi. "Það kom mér mikið á óvart að sjá hversu margir fylgjast með þáttunum á Íslandi. Ég heyrði reglulega "Chris - James“, en þótti það bara gaman.“
James á fjölmarga aðdáendur á Íslandi. "Það kom mér mikið á óvart að sjá hversu margir fylgjast með þáttunum á Íslandi. Ég heyrði reglulega "Chris - James“, en þótti það bara gaman.“ vísir/anton brink
Eflaust kannast aðdáendur Nágranna við hinn elskulega Chris Pappas, sem leikinn er af James Mason. James var staddur hér á landi á dögunum til að taka upp ferðaþætti sem sýndir verða víða um heim á næsta ári. Hann segist elska Ísland og getur varla beðið eftir að koma aftur.

„Ferðin er búin að vera æðisleg í alla staði. Landslagið er stórkostlegt og í raun hefði ég aldrei getað ímyndað mér að heimurinn hefði upp á svo fallega staði að bjóða, ég hef til dæmis aldrei séð eins marga fossa og á þessum fjórum vikum sem ég hef verið hér,“ segir James í samtali við Vísi. Hann ber Íslendingum söguna vel og segir þá sérstaklega indæla.



James hafði heyrt margt um Ísland frá góðvini sínum, Alan Fletcher.vísir/anton brink
Ætlaði til Íslands með Alan Fletcher

„Íslendingar eru frábærir. Allir eru einstaklega vingjarnlegir og boðnir og búnir að hjálpa. Rólegir og yfirvegaðir og bara virkilega frábærir. Ég hef kynnst góðu fólki hér sem ég mun alveg örugglega halda sambandi við,“ segir hann og bætir við að hann hafi heyrt margt gott um land og þjóð frá góðvini sínum Alan Fletcher, sem leikur Karl Kennedy í þáttunum, þegar hann kom hingað til lands í janúar.

„Alan hafði sagt mér allt um sína ferð en ég held að hún hafi verið dálítið frábrugðin minni því það var dimmt nánast allan tímann sem hann var á Íslandi. En það er dálítið fyndið að segja frá því að ég ætlaði að fara með honum í þessa ferð því Nágrannar eru í framleiðsluhléi á þessum tíma. Hins vegar kom dálítið upp þannig að ég komst ekki.“



Nágrannarnir allir góðir vinir

Hann segir, aðspurður, að allir séu eins góðir vinir og þeir líta út fyrir að vera í þáttunum. Sumir þó vissulega betri vinir en aðrir. „Saskia Hampele, sem leikur Georgiu er ein mín besta vinkona. Við einhvern veginn smullum saman um leið og við kynntumst.“

En, er einhver sem þér líkar ekki við?

„Nei mér líkar við alla sem ég vinn með. En ef ég á að velja karakter sem mér líkar ekki við ætli það sé þá ekki bara Josh, eftir að hann kýldi mig,“ segir hann og hlær.



James leikur sem fyrr segir Chris Pappas í þáttunum. Hann segir þá tvo heldur líka einstaklinga, en reynir þó að passa sig á að aðskilja sig frá sínum hlutverkum.

„Við erum líkir að mörgu leyti, til dæmis er Chris alltaf sá sem kemur á milli þeirra sem rífast og reynir að finna lausn á málunum, þannig er ég líka. En mér finnst mikilvægt að við séum ekki of líkir og ég tek karakterinn aldrei með mér heim.“



James og Meyne Wyatt, eða Nate Kinski og Chris Pappas.
Chris Pappas er í þáttunum samkynhneigður, og segist James reglulega fá spurningar um hvort hann sé það sjálfur. Það sé hann ekki og viðurkennir að það hafi verið áskorun að leika samkynhneigðan einstakling.

„Mig grunaði allan tímann að Chris væri samkynhneigður, en handritshöfundar héldu því leyndu lengi vel. Það var áskorun að leika samkynhneigðan mann en ég hef gaman að áskorunum. Fyrst um sinn pældi ég í því hvað fólk myndi hugsa um mig og minn karakter en það breyttist fljótt.“



Leggur Pappas á hilluna

James ákvað seint á síðasta ári að feta nýja slóðir og leggja Chris Pappas á hilluna um tíma. Hann segir ákvörðunina hafa verið afar erfiða, en að mikilvægt sé að taka áhættu í lífinu. Draumur hans sé að starfa sem leikari í Bandaríkjunum.

„Eins mikið og ég elska Nágranna og alla þá sem ég vinn með þá var kominn tími til að breyta til en ég hafði verið í þáttunum í fimm ár. Þetta er frábær vinna en það er svo margt sem ég vil gera á mínum leiklistarferli og mér fannst þetta rétti tíminn til að hætta, að minnsta kosti áður en það yrði of seint,“ segir hann. James kom inn í þættina sem gestaleikari árið 2010 og segist ekki hafa átt von á að fá að dvelja í þeim svo lengi. Fyrir það er hann hins vegar afar þakklátur.

„Mér líkar við alla sem ég vinn með. En ef ég á að velja karakter sem mér líkar ekki við ætli það sé þá ekki bara Josh, eftir að hann kýldi mig.“vísir/anton brink
„Ég væri ekki á þessum stað sem ég er á í dag ef ekki fyrir Nágranna. Nánast allt sem ég kann í dag lærði ég þar, samstarfsfólk mitt er mér sem fjölskylda og vinnan var mér sem skóli. En erfiðu og stóru ákvarðanirnar í lífinu verða oft þær bestu, og nú vona ég bara það besta.“

Erfitt að ferðast ódýrt á Íslandi

James er nú að leggja lokahönd á ferðaþættina, The Budget Backpacker, sem ganga út á það að ferðast á sem ódýrastan máta. Hann segir það þó hafa reynst sér þrautinni þyngri á Íslandi

„Ég viðurkenni það að það var heldur erfitt að ferðast hér ódýrt. Hins vegar eru ótal staðir á Íslandi sem hægt er að heimsækja, án þess að þurfa að greiða fyrir það,“ segir hann og nefnir Landmannalaugar, Hrunalaug og Sólheimasand.



Myndir frá ferðalagi hans má sjá hér fyrir neðan.

Í Seljavallalaug.
Á Sólheimasandi.
Við Jökulsárlón.
James eyddi fjórum dögum í Reykjavík.

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.