Lífið

Hlúir að litabókasjúkum samlöndum

Guðrún Ansnes skrifar
Elsa teiknar meira og minna allan sólarhringinn, annars vegar á tölvur og hins vegar með litum. Hún þvertekur fyrir að fá ógeð.
Elsa teiknar meira og minna allan sólarhringinn, annars vegar á tölvur og hins vegar með litum. Hún þvertekur fyrir að fá ógeð. Vísir/Vilhelm
„Það er greinilega algjört litabókaæði á landinu núna, allt fullt af litabókahópunum á Facebook, þar sem fólk skiptist á að sýna afraksturinn sinn, og sumir hengja myndirnar sínar upp á vegg, svo þetta er skemmtilegt listform,“ segir Elsa Nielsen, konan á bak við íslensku litabókina, Íslensk litadýrð, sem væntanleg er í hillur bókabúða eftir um tvær vikur. Litabókin, sem er fyrir fullorðna, er stútfull af myndum sem Elsa hefur teiknað. Myndavalið er innblásið af íslenskri náttúru, dýrunum sem hér finnast og plöntunum.

„Ég er ekkert endilega að fara að hertaka hillurnar í lundabúðum miðborgarinnar, þetta er ekkert síður hugsað fyrir íslenska litabókaaðdáendur, því greinilega er eftirspurnin til staðar,“ útskýrir listakonan.

Spurð um hvernig henni hafi komið til hugar að fara út í litabókaframleiðslu skellir Elsa upp úr og segir svo: „Eftir að hafa verið dugleg með átakið Ein á dag, þar sem ég teiknaði eina mynd upp á hvern einasta dag og birti á Insta­graminu mínu, kom vinkona mín færandi hendi frá útlöndum, og gaf mér svona litabók fyrir fullorðna og ég heillaðist. Verandi með litina endalaust í kringum mig, fékk ég þá flugu í höfuðið að gaman væri að gera svona alíslenska bók. Það er svo einhvern veginn þannig að ef ég fæ hugmynd, þá hjóla ég í hana. Áður en ég vissi var ég komin til Maríu hjá Eddu, og hún stökk á vagninn,“ útskýrir Elsa.

Þessi hópur kinda myndi sannarlega sóma sér vel á veggjum þeirra sem gefa sér tíma til að lita hann.
Sjálf er Elsa grafískur hönnuður, svo hún er teiknandi lungann úr sólar­hringnum. „Nei, ég fæ ekki leiða á þessu, í vinnunni teikna ég í tölvuna, en hitt teikna ég með litum og blýanti,“ segir hún og bætir við: „ég er reyndar komin með dágott siggsafn á fingurna,“ og skellir rækilega upp úr.

„Ég finn fyrir mikilli hugarró og slökun þegar ég lita svona og teikna, og ég held það sé einmitt það sem fólk heillast svona af, og orsakar þetta litabókaæði,“ bendir hún á, enda streituvaldar í öllum hornum í hröðu nútímasamfélagi.

„Ég bíð bara spennt eftir að koma bókinni frá mér, svo fleiri geti notið. Hún er þessi neonlitaða, svo hún fer líklega ekki fram hjá neinum,“ skýtur þessi hressa listakona að í lokin. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×