Körfubolti

Bara þrjár þjóðir hafa skorað fleiri þrista í einum leik á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel setur hér þrist í leiknum í gær.
Pavel setur hér þrist í leiknum í gær. Vísir/Valli
Íslenska körfuboltalandsliðið skoraði ellefu þriggja stiga körfur í tapleiknum á móti Spáni í gær í fjórða leik íslenska liðsins á Evrópumótinu í körfubolta.

Þetta er einn besti þrista-leikurinn hjá einu liði á Evrópumótinu í ár en aðeins þrjár þjóðir hafa náð því að skora fleiri þrista í einum leik í fyrstu fjórum umferðunum.

Makedóníumenn hafa tvívegis sett niður tólf þrista í einum leik og því hafa einnig náð Finnar og Spánverjar (á móti Tyrkjum) einu sinni hvor þjóð.

Íslenska liðið hitti úr 11 af 34 skotum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna á móti Spáni sem gerir 32 prósent skotnýtingu.

Þeir Pavel Ermolinskij og Haukur Helgi Pálsson voru vissulega í aðalhlutverki í skotsýningunni, Pavel hitti úr 4 af 6 þriggja stiga skotum sínum og Haukur nýtti 3 af 4 þriggja stiga skotum sínum.

Þeir Pavel og Haukur nýttu því 7 af 10 þriggja stiga skotum sínum en restin af liðinu var bara með 17 prósent þriggja stiga skotnýtingu (4 af 24).

Ísland er eins og er í sjötta sæti á Evrópumótinu yfir flesta þriggja stiga körfur með 8,8 að meðaltali í leik en aðeins einn leikur er eftir af riðlakeppninni.

Íslenska liðið skoraði sjö þrista í fyrsta leiknum sínum á móti Þýskalandi, var með níu þrista á móti Ítölum og svo átta þriggja stiga körfur á móti Serbíu.

Strákarnir þurfa að hitta vel úr þriggja stiga skotum sínum í dag ætli þeir að eiga möguleika á því að leggja Tyrki að velli.

Leikur Íslands og Tyrklands hefst klukkan 21.00 að staðartíma í Berlín eða klukkan 19.00 að íslenskum tíma.


Tengdar fréttir

Enginn í Berlín hefur tekið fleiri sóknarfráköst en Hlynur

Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska körfuboltalandsliðsins, hefur verið öflugur í sóknarfráköstunum í fyrstu fjórum leikjum íslenska liðsins á Evrópumótinu en hann hefur tekist flest sóknarfráköst í B-riðlinum.

Haukur: Vorum hrikalega flottir í 20 til 30 mínútur

Haukur Helgi Pálsson var næststigahæstur hjá íslenska körfuboltalandsliðinu í kvöld þegar liðið tapaði með 26 stigum á móti stjörnuprýddu spænsku landsliðinu í fjórða leik sínum í úrslitakeppni Evrópumótsins í Berlín.

Ísland á 60% af "gömlu“ körlunum

Íslenska karlalandsliðið spilaði í gær fjórða leik sinn á fimm dögum á Evrópumótinu í körfubolta. Mikið álag er á íslenska liðinu sem er það elsta í B-riðlinum

Hörður Axel: Ætlum að koma út úr þessu móti með sigur

"Við ætlum að reyna að koma út úr þessu móti með sigur. Við gefum allt í þennan leik gegn Tyrkjum og það er ekki morgundagur eftir morgundaginn. Nú getum við keyrt okkur alveg gjörsamlega út," segir Hörður Axel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×