Lífið

Kurteis töffari af gamla skólanum sem vill engar húfur innandyra

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari hefur fundið fyrir miklum velvilja frá þjóðinni þó hann skilji ekki tungumálið.
Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari hefur fundið fyrir miklum velvilja frá þjóðinni þó hann skilji ekki tungumálið. Fréttablaðið/AntonB
Afsplappaður Lars Lagerbäck mætir mér á Hilton hótelinu í Reykjavík, á týpískum íslenskum haustdegi. Lars er í inniskóm og íþróttabuxum og réttir fram hægri hönd sína og kynnir sig, kurteisin uppmáluð, eins og hann kemur alltaf fyrir.

Við setjumst niður og byrjum strax að ræða um lífið og tilveruna. Lars byrjar að spyrja um mig en fljótlega færist talið yfir í fótboltann og lífsskoðanir hans. Lars segir að hann sé líklega af gamla skólanum, allavega finnist konunni hans það. Hann trúir ekki á að setja of mikið af reglum fyrir liðin sem hann þjálfar, því honum er illa við að refsa leikmönnum.

Hann segir mér líka frá sambandi sínu við Zlatan Ibrahimovic, einn besta knattspyrnumann heims, sem Lars þurfti eitt sinn að reka úr liðinu. Lars hefur líka miklar kenningar um hugarfar Íslendinga og hefur fundið nokkur þjóðareinkenni sem hann hefur velt nokkuð fyrir sér.

Engar húfur inni

„Mér er illa við að vera með of margar reglur fyrir liðin sem ég þjálfa. Reglum fylgja refsingar og mér er illa við að refsa mönnum. Ég trúi miklu frekar á viðmið og vil helst að leikmenn ákveði sjálfir hver viðmið liðsins eru; að þeir ákveði sjálfir hvað sé viðeigandi hegðun,“ segir Lars þegar hann er spurður út í hvernig hann haldi aga á liðinu.

Lars, sem er 67 ára, segist alls ekki eiga erfitt með að ná til landsliðsstrákanna sem eru flestir á þrítugsaldri. En hann reynir að hafa áhrif á hegðun þeirra eins og hann getur.

„Konan mín segir mér samt að ég sé gamaldags,“ segir hann hlæjandi og fer beint í að útskýra af hverju: „Til dæmis þegar liðið hittist einhvers staðar innandyra þá vil ég ekki að þeir séu með húfur eða hatta. Mér finnst það vera vanvirðing. Og þegar ég byrjaði að þjálfa liðið mættu þeir líka oft með kaffibolla á liðsfundi. Ég skildi ekki af hverju þeir voru með kaffi, ef þú ert að drekka kaffi á fundum, þá ertu ekki að einbeita þér. Konan mín hefur sagt mér að hætta þessari vitleysu. En ég vil bara hvetja þá að til að gera rétt.“

Tölum ekki um úrslit

Það er greinilegt að smáatriðin skipta Lars miklu máli. Það að mæta með kaffibolla á fundi tengist inn í stærra mengi og er hluti af nálgun Lars á knattspyrnuna og, að því er virðist, lífið sjálft. Hegðun leikmanna og þjálfara skiptir hann gríðarlegu máli, bæði hvað er sagt og hvað er ekki sagt.

„Til dæmis tölum við aldrei um hvernig við vonum að úrslit leikja verði. Við tölum bara um að leggja okkur hundrað prósent fram í öllum leikjum og bara í öllu sem við gerum. Þegar ég tók við liðinu heyrði ég sögur, sem ég veit ekki endilega hvort séu sannar, um að menn hefðu verið að skemmta sér eitthvað í keppnisferðum og að menn væru ekki nógu einbeittir í kringum leikina. Ég sagði þeim strax í upphafi að við ættum að vinna okkur inn virðingu. Hluti af því að vera gott lið er að njóta virðingar, bæði fólksins og andstæðinganna. Þannig að þó ég sé 40 árum eldri á ég í góðu sambandi við strákana í liðinu. Það skiptir ekki máli hvort þeir eru tvítugir eða 37 ára eins og Eiður Smári. Það eina sem skiptir máli er að þeir viti af hverju við gerum hlutina á tiltekinn hátt, að þeir skilji ástæðurnar fyrir viðmiðum okkar bæði innan og utan vallar. Upplýsingarnar eru lykilatriði í þessu.“

Skógarbóndi með gott gildismat

„Ég var alinn upp á bóndabæ, pabbi minn var skógarbóndi. Hann keypti skóg sem ég erfði eftir foreldra mína. Ég elska að vera þar. Mér þykir frábært að vera þar, sérstaklega eftir því sem ég eldist.“

Lars þakkar foreldrum sínum fyrir að hafa gefið sér góð gildi í vöggugjöf, til dæmis vinnusemi.

„Pabbi minn lét mig hjálpa til við ýmislegt, þó svo að ég hafi ekki alltaf viljað það. Mig langaði frekar að vera í hokkí eða fótbolta. Ég þurfti að fórna því og hjálpa til, sem ég er þakklátur fyrir.“

Að lokinni herskyldu fór Lars í háskóla þar sem hann nam stjórnmálafræði og sögu og lauk BA-gráðu. Hann hóf að leika knattspyrnu með litlu sænsku liði að nafni Gimonäs CK og var ráðinn í fullt starf hjá liðinu sem íþróttastjóri og yfirþjálfari yngri flokka.

„Þjálfarinn minn þar starfaði fyrir sænska knattspyrnusambandið og hvatti mig til þess að sækja mér menntun í þjálfun. Ég lét þá gamlan draum rætast og skráði mig í íþróttaháskóla.“

Þar kynntist hann góðvini sínum Roland Andersson, en þeir félagarnir hafa starfað saman hjá sænska landsliðinu, því nígeríska og nú því íslenska. Roland er njósnari fyrir Lars, skoðar andstæðingana.

„Þegar ég skrifaði undir hjá KSÍ sagðist ég vilja fá að velja mér njósnara sjálfur. Ég vildi fá Roland, því ég treysti honum fullkomlega og við skiljum hvor annan ótrúlega vel. Roland skrifar ítarlegar skýrslur um andstæðinga okkar, sem gagnast okkur ótrúlega vel.“

Dýrkunin

Undanfarna viku hefur mikil umræða spunnist um hver það var sem átti hugmyndina að því að Lars kæmi og þjálfaði íslenska landsliðið.

Í þeirri umræðu kristallast sú staðreynd að íslenska þjóðin heldur mikið upp á Lars; hálfpartinn dýrkar hann. Fjölmiðlar landsins þökkuðu honum persónulega fyrir árangurinn og margir hafa sagt í hálfkæringi að hann ætti að bjóða sig fram til forseta. Í þeim hópi var meðal annars Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra.

Lars segist hafa fundið fyrir þessum einstaklega mikla velvilja, þó svo að hann skilji ekki tungumálið.

„Svona hefur auðvitað áhrif á mann. Maður tekur eftir svona og þetta þykir mér vera mjög jákvætt. Eftir fjölmörg ár í atvinnumennsku er ég kominn með svolítið þykkan skráp. En þessi jákvæðni hefur náð í gegn. Mér finnst líka gaman að vinna með íslenskum fjölmiðlum. Í Svíþjóð og í öðrum löndum sem ég hef unnið í hafa sumir fjölmiðlarnir meiri áhuga á að búa til einhvern skandal.“

Hann segir íslenska fjölmiðla áhugasamari um liðið sjálft og knattspyrnuna.

„Ég met það mjög mikils. Mér finnst líka svo gaman að sjá hvað Íslendingar standa alltaf saman. Ísland er auðvitað lítil þjóð og þið virðist alltaf geta stutt hvert annað. Til dæmis vorum við á keppnisferðalagi þegar Eurovision fór fram. Nánast allir strákarnir í liðinu fylgdust með keppninni og studdu íslenska keppandann. Það skiptir ekki máli hver er að keppa í hverju, þjóðin styður hann af krafti. Mér finnst mjög gott að finna fyrir þessum stuðningi. En ég vona að hann hafi ekki þannig áhrif á mig að hann breyti mér, sem ég efast reyndar um.“

Ekki viss um hvað hann sagði

Eftir að hafa rætt við Lars í dágóða stund áttar maður sig á að hann er kannski ekki alveg eins og hann virkar í sjónvarpsviðtölum. Hann er meiri töffari en maður sér hann kannski fyrir sér í sjónvarpinu. Ákveðnin hans skín í gegn í bland við sjálfsöryggi og er mikil vigt í hverju orði sem hann lætur frá sér. Þegar ég spyr hann um orð hans í Kastljósi, þar sem hann útilokaði ekki að halda áfram með liðið eftir Evrópukeppnina, brosir hann.

„Ég veit ekki hvernig ég orðaði þetta. En það sem ég meinti var að ég hef lært það í lífinu að loka engum dyrum. Maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. En það kæmi mér mjög á óvart, ef ég héldi áfram með liðið. Planið er að ég hætti eftir keppnina og Heimir haldi áfram með liðið.“

Hann segist ekki vita hvað hann ætlar að gera eftir Evrópukeppnina og segir allt eins líklegt að hann hætti að þjálfa. En þó er alltaf stutt í atvinnumanninn í Lars:

„Mér finnst mjög gaman að þjálfa og mun skoða allt sem kemur upp. Hvort sem það verður KSÍ, eða danska knattspyrnusambandið, það norska eða bara hvað sem er.“

Lars segir samstarfið við Heimi hafa gengið vel og telur að hann eigi eftir að pluma sig sem landsliðsþjálfari.

„Áður var hann bara búinn að vera með félagslið, en hefur núna fjögurra ára reynslu af landsliðsþjálfun. Hann er greindur náungi og ég held að hann muni standa sig vel. En auðvitað veit maður ekkert í raun fyrr en það reynir á hann.“

Hér má lesa annan hluta viðtalsins, þar sem Lars talar um samskipti sín við Zlatan Ibrahimovic.


Tengdar fréttir

Ísland er fullkomið lið fyrir Lars

Lars Lagerbäck er aftur orðinn elskaður og dáður eins og hann var í Svíþjóð þegar allt lék í lyndi þar. Sænskur blaðamaður segir Svía vera búna að átta sig á því að það var ekki rétt að láta hann fara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×