Lífið

Werner Herzog skoðaði handrit eldklerksins á Landsbókasafninu

Birgir Olgeirsson skrifar
Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður ásamt Werner Herzog.
Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður ásamt Werner Herzog. Vísir/Facebook
Þýski leikstjórinn Werner Herzog leit við á Landsbókasafninu í dag til að kynna sér handrit eldklerksins Jóns Steingrímssonar. Herzog mætti þangað ásamt eiginkonu sinni og tökuliði en hann er að vinna verkefni um eldfjöll um þessar mundir og hefur meðal annars skoðað svæðið í kringum Lakagíga, sem er gígaröð á 25 kílómetra langri gossprungu vestan Vatnajökuls.

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður heilsaði upp á Herzog og fylgdarliðið en með honum í för var breski eldfjallafræðingurinn Clive Oppenheimer.

„Þetta var mjög ánægjulegt og starfsmenn í handritasafninu voru að aðstoða hann við þetta,“ segir Ingibjörg Steinunn. „Hann myndaði efni á digital vél og ætlar væntanlega að nota þetta í rannsóknum varðandi kvikmyndir eða slíkt.“ Hún segir Herzog og tökuliðið hafa fengið akkúrat það veður sem vonast var eftir við Lakagíga. „Rok og rigningu og mjög þungbúið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×