Lífið

Kom út úr skápnum á Facebook: „Veit um tvo sem hafa komið út eftir myndbandið“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
„Ef ég hefði sett inn einhvern langan status eða slíkt þá er ég ekkert viss um að þetta hefði náð til jafnmargra,“ segir Guðmundur Kári Þorgrímsson. Um helgina setti hann netið á hliðina er hann setti myndband inn á Facebook síðu sína þar sem hann tilkynnti að hann væri hommi.

Guðmundur er sextán ára og hóf í haust nám við Verkmenntaskólann á Akureyri. Hann frá sveitabæ skammt frá Búðardal sem heitir Erpstaðir. Hann var gestur í Morgunþættinum á FM957 í morgun þar sem hann ræddi um myndbandið.

„Ég vildi bara koma út og ég vildi líka að aðrir kæmu út og væru heiðarlegir við sjálfa sig,“ segir Guðmundur Kári. Áður en hann setti myndbandið á netið hafði hann aðeins sagt fjölskyldu og nánustu vinum sínum frá þessu. „Ein vinkona mín sagði reyndar að hún hefði eiginlega vitað þetta.“

Þegar þetta er skrifað hefur verið horft á myndbandið rúmlega 77 þúsund sinnum, ríflega 3.200 hafa líkað við það og 620 deilt því. Viðbrögðin segir hann að hafi verið gífurleg.

„Ég er í losti. Þið getið ekki ímyndað ykkur hve margir hafa haft samband við mig og sagt bara „Gaur, hvernig fórstu að þessu? Mér líður nákvæmlega eins. Hvað á ég að gera?“ Síminn hjá mér hefur eiginlega ekki stoppað og ég veit um allavega tvo sem hafa ákveðið að koma út í kjölfar þessa,“ segir Guðmundur.

Myndbandið sem hann setti á vefinn má sjá hér að neðan.

ef þið viljið spjalla þá er snap: gummitviburi

Posted by Guðmundur Kári Þorgrímsson on Friday, 18 September 2015





Fleiri fréttir

Sjá meira


×