Lífið

Leikstjórinn útskýrir hvers vegna Adele notar samlokusíma í nýjasta myndbandinu

Birgir Olgeirsson skrifar
Þessi litli sími hefur verið uppspretta fjölda vangavelta.
Þessi litli sími hefur verið uppspretta fjölda vangavelta. Vísir/Youtube
Myndbandið við nýjasta lag bresku tónlistarkonunnar Adele, Hello, hefur fengið tæp 56 milljónir áhorfa á myndbandavefnum YouTube á aðeins þremur dögum. Í upphafi myndbandsins má sjá Adele gera heiðarlega tilraun til að eiga símtal við ónafngreinda manneskju en fjölda margir hafa velt því fyrir sér hvers vegna í ósköpunum tónlistarkonan notast við gamlan samlokusíma í myndbandinu í stað snjallsíma.

Leikstjóri myndbandsins, XavieDolan, virðast hafa fengið fjölda fyrirspurna um þessa listrænu ákvörðun en hann sagði ástæðuna fyrir samlokusímanum vera þá að honum líði eins og hann sé að horfa á auglýsingu ef hann sér snjallsíma í kvikmyndum eða tónlistarmyndböndum.

Hann útskýrði þessa afstöðu frekar í viðtali við tímaritið People á laugardag. „Þetta er ekki það mikið mál í mínum augum. Mér finnst óþægilegt að notast við iPhone í tökum því mér líður eins og ég sé að taka upp auglýsingu. Allir þessir hlutir, Iphone-ar, fartölvur, eyðileggja fyrir mér upplifunina og toga mig inn í raunveruleikann. Ég er ekki að leita eftir því. Þú vilt komast burt frá raunveruleikanum, þú vilt fá innsýn í veruleika annarra, þú vilt ferðast eitthvert, þú vilt upplifa einhverja sögu. Ég er reyndar að átta mig á því að kannski truflaði ég upplifunina meira en nokkur annar með því að nota þennan samlokusíma, en það var ekki viljandi.“

Aðrir hafa haldið því fram að tilvist samlokusímans í myndbandinu eigi að tákna að atburðirnir í því eigi sér stað um miðbik síðasta áratugar, en leikstjórinn er eins og glöggt hefur komið fram á öðru máli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.