Lífið

Kraftaverk gerast hjá fólki í ofþyngd

Elín Albertsdóttir skrifar
Gunnar hefur áratuga reynslu í því að hjálpa fólki að breyta mataræði með bættri heilsu. Hann segir það erfitt en vel hægt. Allir ættu að minnka sykurneyslu.
Gunnar hefur áratuga reynslu í því að hjálpa fólki að breyta mataræði með bættri heilsu. Hann segir það erfitt en vel hægt. Allir ættu að minnka sykurneyslu. Mynd/GVA
Gunnar Már Kamban hefur starfað sem einka- og líkamsræktarþjálfari í meira en tuttugu ár. Auk þess hefur hann gefið út þrjár bækur sem fjalla um lágkolvetnamataræði og rafbók sem kennir fólki að hætta að borða sykur. Hann veit hvernig fólk sem glímir við ofþyngd getur náð árangri til að létta sig.

Mikil umræða hefur verið undanfarið um færslu sem hinn geðþekki söngvari Valdimar setti á Facebook-síðu sína en hann tók þá ákvörðun að halda af stað í leiðangur til að létta sig. Allir sem berjast við aukakíló vita að það þarf bæði aga og þolinmæði til að ná árangri í heilsurækt. Gunnar Már hefur unnið með mörgum sem hafa barist við aukakíló og veit hvað best er að gera í þessum aðstæðum.

Gunnar ætlaði sér að verða kokkur og stundaði nám í matreiðslu. Það kemur sér vel núna þegar hann skrifar bækur um mataræði.MYND/GVA
Það getur tekið tíma að brjótast út úr gömlum viðjum og skapa sér nýjan lífsstíl. Það er ekki eingöngu Valdimar söngvari sem stendur frammi fyrir þessu. Íslendingar eru þyngri í kílóum talið en flestar aðrar þjóðir í Evrópu. Gunnar segir að það sé áhyggjuefni. „Sem betur eru margir að vakna til vitundar um þetta heilsufarsvandamál. Friðrika Hjördís Geirsdóttir var með sykurlausan september í fyrra og eftir það hefur orðið mikil vitundarvakning. Ég finn það vel á námskeiðunum mínum. Ég tengi þau rafbókinni Hættu að borða sykur en á þessum námskeiðum fer ég ítarlega í mataræði, gef uppskriftir og ráðgjöf. Þetta hefur virkað alveg ótrúlega vel. Ég hef séð þvílíkan mun á fólki á stuttum tíma eingöngu með því að sleppa sykri.

Fullkominn farvegur

Fólk sem kemur til mín er ekki bara að berjast við aukakíló, heldur einnig streitu, króníska líkamlega verki, háan blóðþrýsting og fleiri heilsubresti. Offitan segir manni að fólk hafi verið að gera eitthvað rangt. Þótt ég hafi alltaf sjálfur hreyft mig reglulega, byrjaði að kenna eróbikk 17 ára, þarf ég samt að passa mig í matar­æði til að halda mér í formi. Það hentar því ágætlega að mín tvö helstu áhugamál eru matur og hreyfing sem fer vel saman,“ segir Gunnar sem er 42 ára. Hann ætlaði sér að verða matreiðslumaður og stundaði það nám í nokkur ár. Starfaði á veitingahúsum í Reykjavík og á Akureyri þar sem hann er fæddur. „Mér hefur alltaf þótt allur matur góður en sem betur fer finnst mér hreyfing líka skemmtileg. Ég les ótrúlega mikið um mat og næringu. Reyni að kynna mér allt varðandi þessi mál sem kemur sér vel í þjálfuninni. Ætli ég hafi ekki fundið hinn fullkomna farveg fyrir áhugamálin mín tvö,“ segir Gunnar.

Ótrúlegur árangur

Þegar hann er spurður hvort ekki sé erfitt að hefja þann feril að létta sig þegar fólk er komið í mikla ofþyngd, svarar hann: „Jú, það er erfitt fyrir alla, hvort sem menn þurfa að losa sig við 10 kíló eða 100. Stundum finnur fólk að það er komið niður á ákveðinn botn með líf sitt og það er ágætt, þá finnur það um leið hvatninguna til að breyta líferni sínu. Það er sömuleiðis gott mál að gera ákvörðun sína opinbera en með því fæst stuðningur sem allir eru tilbúnir að veita. Matarfíkn er ekkert öðruvísi við að eiga en önnur fíkn. Ef fólk er komið með undirliggjandi sjúkdóma, háan blóðþrýsting, of hátt kólesteról eða byrjunareinkenni sykursýki II þarf að byrja ferlið hjá lækni. Mataræðið skiptir síðan öllu máli.

Ég hef kynnt mér lágkolvetnamataræði út í ystu æsar og skoðað alls konar rannsóknir sem hafa verið gerðar. Ég hef aldrei séð annan eins árangur og hjá fólki sem hefur tekið sykur út úr mataræðinu en bætir við trefjum í gegnum grænmeti og fræ og góðri fitu. Ég læt fólk drekka vatn með tveimur teskeiðum af chia-fræjum nokkrum sinnum yfir daginn til að fá trefjar. Svo er til dæmis frábært að setja eina teskeið af kókosolíu út í kaffið sitt. Þegar maður breytir mataræðinu með þessum einföldu hlutum er sjáanlegur munur á fólki eftir nokkra daga. Það er í raun kraftaverk. Blóðsykurinn kemst í jafnvægi og hormónar líkamans sömuleiðis. Ég reyni að byggja mataræðið upp þannig að sykurlöngunin hverfi. Það eru nefnilega fæstir sem ná þeim árangri að hætta alveg að borða sykur. Þess vegna er mjög gott að vera meðvitaður um þetta og reyna af fremsta megni að forðast sykur og matvæli þar sem sykur er falinn.“

Mataræði skiptir mestu máli

„Hreyfingin er mikilvæg en mataræðið er mikilvægara. Fólk sem er í mikilli ofþyngd á erfitt með að ganga, það á erfitt með daglegar venjur eins og að reima skóna eða finna á sig föt. Þess vegna segi ég fólki að taka mataræðið fyrst í gegn. Maður getur æft fimm sinnum í viku án þess að missa gramm af því að mataræðið er vitlaust. Ég myndi segja við manneskju í ofþyngd að byrja á mataræðinu og þegar árangurinn kemur í ljós að huga að hreyfingu sem hentar. Ég myndi mæla gegn stífu hreyfingaátaki í upphafi. Venjulega fær fólk löngun til hreyfingar þegar það verður léttara á sér. Göngutúrar utanhúss eru auðvitað alltaf mun betri kostur en að leggjast upp í sófa.“

Gunnar segist hafa upplifað og séð ótrúlegar breytingar á fólki sem hefur snúið við blaðinu með mataræði og lífsstíl. „Það er alveg einstaklega skemmtilegt að fylgja fólki í gegnum slíka vegferð. Ólíklegustu kandídatar eru að gera stórkostlega hluti. Allir hafa sömu tækifæri til breytts lífernis en það þarf að finna réttu leiðina til þess. Þetta er ekki tekið með hnefunum, maður þarf að vera meðvitaður um blóðsykur, hormón og líkamlegt ástand. Fólk öðlast nýtt líf þegar árangurinn kemur í ljós. Það er ákaflega gleðilegt að snúa frá sófakartöflu í heilsufrík.“

Þegar Gunnar er spurður hvort sé skynsamlegra að breyta mataræðinu eða fara í magaminnkunaraðgerð, er hann fljótur til svars. „Ég held að allir læknar myndu benda á mataræðisleiðina fremur en aðgerð. Hún getur þó verið lífsnauðsynleg í einhverjum tilvikum. Það er hægt að létta sig með mataræðinu, ég hef séð ótrúlega mörg dæmi um frábæran árangur,“ segir hann.

Heilsuefling frá fyrstu tíð

„Mér finnst sorglegt miðað við hversu Íslendingar eru heilsumeðvitaðir og hafa flestar líkamsræktarstöðvar í heimi hvað fólk er orðið feitt. Ég verð var við mikla heilsueflingu á vinnustöðum og í skólum. Samt erum við feit og maður spyr sig hverju sé um að kenna. Fullt af matvörum eru markaðssettar sem hollusta en síðan er varan full af sykri.“

Oft er rætt um að skólamatur sé ekki nægilega hollur og góður. Mikið er um unna matvöru í skólaeldhúsum. Breski kokkurinn Jamie Oliver hefur markvisst unnið að bættu mataræði í skólum þar í landi. Gunnar á fjögur börn og segist vita af þessu. „Þetta er flókið mál. Allir vilja að börnin fái hollan mat í leik- og grunnskóla en jafnframt vilja foreldrar hafa efni á skólamáltíðum. Því miður eru hollar matvörur dýrar á Íslandi. Þá er mikilvægt að börnin fái hollan og næringarríkan mat sem unninn er frá grunni heima hjá sér. Börn eru að þyngjast ekki síður en þeir eldri. Við þurfum að byrja heilsueflinguna snemma á lífsleiðinni, hafa hollar og sykurskertar vörur í ísskápnum,“ segir Gunnar Már.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×