Lífið

Fyrrum landsliðsþjálfari í handbolta flytur inn bjóra frá Borg til Finnlands

Stefán Árni Pálsson skrifar
Bruggarar hjá Borg til vinstri og Kaj er til hægri.
Bruggarar hjá Borg til vinstri og Kaj er til hægri. vísir
Borg Brugghús lendir á markaði í Finnlandi í þessari viku.  Af því tilefni stendur brugghúsið fyrir viðburði á einum flottasta bjórbar Helsinki í kvöld. Þar munu bruggmeistararnir taka á móti gestum og leiða þá í sannleikann um nokkra af fjölmörgum bjórum Borgar sem seldir verða á staðnum. 

Ennfremur tekur Borg þátt í Olut Expo um helgina - stærstu bjórsýningu landsins sem telur nokkur þúsund gesti. Svo verður siglt út í eyjuna Iso Mustasaari á laugardaginn til að brugga finnsk-íslenskan samstarfsbjór með brugghúsinu Suomenlinnan Panimo.

„Já, ég hlakka mikið til enda dagskráin þétt og lítur vel út.  Sjálfur er ég spenntastur fyrir samstarfsbrugguninni og finnst fátt skemmtilegra en að hitta hressa kollega og hræra í eitthvað óvænt,“ segir Árni Long bruggmeistari hjá Borg Brugghúsi.

„Við höfum kastað á milli einhverjum hugmyndum af bjórnum en þetta er allt mjög óræðið ennþá.  Eina sem er ákveðið er að reyna að sameina íslenska og finnska menningu á einhvern hátt.  Við erum búnir að sanka að okkur einhverjum hráefnum og restin verður svo bara að fá að koma í ljós.“

Árni segir að fyrstu sendingarnar séu að lenda í Finnlandi í þessari og næstu viku.

„Mér skilst að Garún og Leifur séu bæði að fara í einhverja sölu í Alko, ríkisverslunum Finna, en svo er mest af þessu magni að fara á bari og veitingahús,“ segir Árni.

Það er fyrirtækið Uniq Drinks Finland sem flytur bjórinn inn og selur fyrir hönd Borgar Brugghúss.

Féll fyrir bragðinu

Tildrög samstarfsins má rekja til þess að einn sölustjóri þess, Kaj Kekki, var staddur á Eistlandi þar sem hann smakkaði bjórinn Garúnu nr.19 frá Borg í fyrsta skipti og féll algjörlega fyrir bragðinu.

Í kjölfarið setti hann sig í samband við Borg og þurfti til þess að leggja í forneskjulegar framkvæmdir að mati sumra.

„Einn daginn fengum við bara bréf – og þá er ég að tala um „inn um lúguna bréf“ – frá manni sem sagði okkur frá þessari upplifun sinni í Eistlandi.  Hann sagði okkur ennfremur að netfangið á heimasíðu okkar væri í einhverju rugli og það væri ekki hægt að senda okkur tölvupóst,“ segir Árni.

Hann sagði að „fyrir einstaka vörur væri þess virði að leggja extra mikið á sig“ og prentaði út bréfið og fór með það á pósthús, í stað þess að gefast upp á okkur.  Þetta er auðvitað ákveðið afrek í bókum okkar kynslóðar og því ekki annað hægt en að taka manninn alvarlega,“ segir Árni um Kaj.

Kaj Kekki þekkir hinsvegar ágætlega til landsins þar sem hann kom hingað í nokkrar keppnisferðir í handbolta fyrir einhverjum árum, þá bæði sem þjálfari finnska landsliðsins og keppandi í meistaradeild Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×