Lífið

John Oliver gerir grín að dönskum dýrahirðum

Birgir Olgeirsson skrifar
John Oliver lét danska dýragarðsstarfsmenn heyra það.
John Oliver lét danska dýragarðsstarfsmenn heyra það. Vísir/Youtube
Samfélagsrýnirinn John Oliver er allt annað en hrifinn af uppátækjum danskra dýrahirða. Síðastliðinn fimmtudag ákváðu starfsmenn dýragarðsins í Óðinsvéum að kryfja níu mánaða gamalt ljón fyrir framan áhorfendur. Var þessi sýning sögð hafa fræðslugildi fyrir börn sem fengu að fræðast um líffærastarfsemi ljóna á meðan krufningunni stóð.

„Þetta er satt. Danskur dýragarður krufði ljón fyrir framan börn,“ sagði Oliver í þætti sínum á sunnudag. Hann bætti við að þetta væri einnig eins og að segja börnunum að jólasveinninn sé sannarlega til. „En hann er dauður og svona lítur miltað hans út.“

Margir Danir hafa bent á að ekki hafi öll börn verið hrædd við þessa sýningu, heldur frekar verið forvitin og spurt spurninga. Sögðu þeir sem voru hlynntir þessu uppátæki að gagnrýnendur væru að einblína á tilfinningahlutann í stað þess að sjá fræðslugildið fyrir börnin.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem danskir dýrahirðir eru gagnrýndir fyrir slíkar sýningar. Í febrúar í fyrra varð dýragarðurinn í Kaupmannahöfn fyrir mikilli gagnrýni eftir að gíraffa var slátrað þar og kjöt af honum var kastað til ljóna fyrir framan börn.

Hægt er að horfa á innslag Olivers hér fyrir neðan en þáttur hans verður sýndur í heild með íslenskum texta á Stöð 2 í kvöld.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×