Lífið

Hvernig kreistir þú mest úr rafhlöðunni þinni?

Samúel Karl Ólason skrifar
Rafmagnslaus snjallsími kemur að litlum notum.
Rafmagnslaus snjallsími kemur að litlum notum. Vísir/Getty
Ef það er eitthvað sem fólk á nánast aldrei nóg af, þá er það rafmagn á farsíma og öðrum snjalltækjum. Ótrúlega oft þegar fólk þarf á þeim hvað mest að halda eru tækin rafmagnslaus og marga síma þarf að hlaða daglega. Hér eru teknar saman nokkrar góðar leiðir til að kreista hvað mest út úr rafhlöðu.

Nauðsynlegt er að taka fram að umrædd atriði eiga sérstaklega við tæki sem keyra á Android stýrikerfinu þó mörg þeirra dugi einnig fyrir annars konar tæki.

Ein besta leiðin er að hafa birtustig skjás tækisins ekki sjálfstillandi og í klípu að kveikja á svokölluðu Power Saving Mode. Þar að auki eru margskonar stillingar sem hægt er að fara yfir svo að forrit séu ekki alltaf í gangi. Þar er best að fikta sig áfram og eyða jafnvel forritum sem eru ekki í notkun.

Sé bakgrunnsmyndin stillt á hreyfingu borgar sig að stöðva það, þar sem það tekur töluvert frá rafhlöðunni.

Titringur dregur einnig verulega úr líftíma rafhlaðna og því er kjörið að slökkva á honum. Þá kannski sérstaklega þeirri stillingu að síminn eða tækið titrar smávægilega þegar ýtt er á takka. Sama má segja um GPS staðsetningu símans og Bluetooth.

Á vef CNet má sjá fimm sniðug smáforrit sem nota má til að lengja endingu rafhlaðna í Android tækjum. Þar má helst nefna Juice Defender og Tasker. Með forritum sem þessum má breyta stillingum á ýmsan máta til að kreista sem mest úr tækjunum. Sem dæmi má nefna að hægt er að setja upp dagskrá með Tasker svo að síminn slekkur á þráðlausu neti og öðrum stillingum á næturnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×