Lífið

Tólf ára en hefur tvisvar bjargað lífi móður sinnar

Þrátt fyrir að vera aðeins 12 ára hefur Ingvar Óli Sigurðsson afrekað að bjarga lífi móður sinnar og það ekki bara einu sinni heldur tvisvar. Í bæði skiptin hringdi hann í Neyðarlínuna þegar móðir hans, Hrefna Samúelsdóttir, veiktist lífshættulega á heimili fjölskyldunnar á Hvammstanga. Auk þess að sjá um samskipti við Neyðarlínuna þurfti hann að hugsa um yngri bræður sína, en Ingvar er elstur þriggja bræðra.

„Ég man í rauninni lítið frá þessum degi,“ segir Hrefna móðir Ingvars í fimmta þætti af Neyðarlínunni um það þegar hún veiktist í fyrra skiptið. Hana svimaði og leið undarlega, en síðar átti eftir að koma í ljós að hún var með heilablóðfall.

Mundi eftir vinnusíma pabba síns

„Ég spurði bara hvað ég ætti að gera og hún sagði mér að hringja í Neyðarlínuna,“ segir Ingvar Óli sem síðar var útnefndur maður ársins á Norðurlandi vestra fyrir frammistöðu sína.

Í seinna skiptið var Hrefna nýkomin heim úr margra mánaða langri endurhæfingu eftir heilablóðfallið, en þá fékk hún flogakast á heimili sínu. Aftur kom Ingvar til bjargar.

„Ég var bara inni í herbergi þegar ég heyrði lætin. Heimasíminn var týndur en svo mundi ég eftir vinnusímanum hans pabba og hringdi úr honum.“

Ítarlega verður fjallað um hetjudáð Ingvars Óla í fimmta þætti af Neyðarlínunni sem er á dagskrá Stöðvar 2 á sunnudag kl. 20.05. Meðfylgjandi er stutt brot úr þættinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×