Lífið

„Hver sagði að ég þyrfti að setja inn fullt af myndum af mér fáklæddri til að vera einhvers virði?“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Essena O'Neill er að vekja mikla athygli.
Essena O'Neill er að vekja mikla athygli. Vísir
Essena O'Neill er 18 ára áströlsk stelpa sem hefur sagt skilið við samfélagsmiðla. O'Neill er í raun heimsþekkt og hefur hún yfir 700.000 fylgjendur á Instagram. Hún segist vera orðin háð viðurkenningu frá samfélaginu og að myndirnar sem hún deili séu ekki raunverulegar.

O'Neill hefur í gegnum tíðina sett inn myndir af sér og sínum fullkomna lífstíl og hefur hún haft fínar tekjur af því.

Þann 27. október eyddi hún yfir tvö þúsund myndum af Instagram reikningi sínum en að hennar mati; „voru myndirnar tilgangslausar og aðeins til að koma sjálfri sér á framfæri.“

Aðeins voru 96 myndir eftir á reikningi hennar og nú hefur hún breytt myndatextanum við allar þær myndir, þannig að þær segi sannleikann. Hún hefur ekki gefið kost á sér í viðtöl eftir þessa ákvörðun sína.

Sem dæmi breytti hún textanum við eina mynd og skrifaði í staðinn; „Maginn dreginn inn, mjög útpæld stelling, brjóstin upp. Ég vil bara að ungar stelpur viti að þetta er ekki raunveruleikinn.“

O'Neill setti inn langt myndband á YouTube þar sem hún útskýrir þessa nýju afstöðu sína.

„Af hverju ætti maður að segja fylgjendum sínum að manni sé greitt fullt fyrir að kynna þeirra vörur,“ segir hún í myndbandinu.

„Af hverju ætti maður að segja þeim að ég fari í margar tökur á hverjum degi, bara til að geta deild myndum á Instagram. Ég var bara heltekinn af þessu og það er ástæðan fyrir því að ég ætla hætta á samfélagsmiðlum. Ég var ekki að lifa í hinum venjulega þrívíddarheimi, heldur aðeins í tvívídd.“

Hún segist hafa vaknað á hverjum degi og skoðað Instagram-reikning sinn og allar athugasemdirnar við hverja mynd.

„Ég lifði bara innan kerfis sem var byggt upp á samþykki samfélagsins. Kerfi sem sagði að ef þú ert genetískt falleg, þá ertu mikilvægari en aðrir. Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því hversu miklir peningar eru innan samfélagsmiðlana. Mér líður núna vel og sérstaklega eftir að ég gerði mér grein fyrir því að ég var að lifa lífi sem var langt frá því að vera raunverulegt.“

O'Neill segist hafa elskað þetta líf en á endanum fengið nóg.

„Ég leit aldrei svona út þegar ég var heima hjá mér eða þegar ég vaknaði. Hver sagði mér þegar ég var lítil að ég þyrfti að setja inn fullt af myndum af mér fáklæddri til að vera einhvers virði. Hver sagði mér að ég væri ekki nóg án farða, því það var það sem ég hélt. Ég hélt að líkaminn minn væri allt og ef ég liti vel út, þá myndi fólk hlusta á mig.“

Myndbandið má sjá hér að neðan. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×