Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta flaug í morgun út til Ungverjalands þar sem liðið mætir heimastúlkum á laugardaginn í fyrsta leik í undankeppni EM.
Ívar Ásgrímsson, þjálfari liðsins, valdi í gær þær tólf stelpur sem spila fyrsta Evrópuleik liðsins í sex ár. Það vekur vissulega athygli að fjórar systur eru í hópnum að þessu sinni. Það eru landsliðsfyrirliðinn Helena Sverrisdóttir og yngri systir hennar, Guðbjörg Sverrisdóttir. Helena sem er 27 ára spilar með Haukum en hin 23 ára gamla Guðbjörg er fyrirliði Valsliðsins. Þær unnu báðar Íslandsmeistaratitilinn með Haukum.
Hinar systurnar í tólf manna hópnum eru Gunnhildur Gunnarsdóttir og yngri systir hennar, Berglind Gunnarsdóttir, sem urðu saman Íslandsmeistarar með Snæfelli síðasta vor. Berglind, sem er 22 ára, er annar tveggja nýliða liðsins ásamt Bergþóru Holton Tómasdóttur en hin 25 ára gamla Gunnhildur hefur verið fastamaður í landsliðinu frá því að það var endurvakið árið 2012.
Helena og Guðbjörg léku sinn fyrsta landsleik saman í fyrra og hafa verið í landsliðinu í öllum sex leikjum liðsins á þessu ári. Þetta verða ekki fyrstu systurnar til þess að spila í Evrópuleik með íslenska kvennalandsliðinu en Sigrún Sjöfn og Guðrún Ósk Ámundadóttir léku saman í sex Evrópuleikj- um á árunum 2008 til 2009.
Fjórar systur á leið með landsliðinu til Ungverjalands
Óskar Ófeigur Jónsson. skrifar

Mest lesið


Grealish og Foden líður ekki vel
Enski boltinn


Njarðvík og ÍR fögnuðu bæði tveimur sigrum í kvöld
Íslenski boltinn





