Körfubolti

Íslensku stelpurnar þurfa að stoppa eina sem er 208 sentímetrar á hæð

Bernadett Határ (númer 4) er miklu stærri en liðsfélagarnir.
Bernadett Határ (númer 4) er miklu stærri en liðsfélagarnir. Mynd/Fésbókarsíða Vasas
Íslensku stelpurnar í körfuboltalandsliðinu bíður verðugt verkefni út í Ungverjalandi í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2017.

Íslenska kvennalandsliðið hefur verið að æfa tvisvar á dag í þessari viku en þetta er í fyrsta sinn sem landsliðið kemur saman á þessum tíma enda hafa landsleikir á vegum FIBA vanalega farið fram á sumrin en ekki inn á sjálfur tímabilinu.

Fyrsti mótherji íslenska liðsins er lið Ungverjalands sem var með á síðasta Evrópumóti sem fór fram í Ungverjalandi og Rúmeníu síðasta sumar.  

Það er ein stelpa í ungverska landsliðinu sem mun bera höfuð og herðar yfir alla aðra leikmenn á vellinum í höllinni í Miskolc á laugardaginn kemur.

Bernadett Határ er 21 árs og 208 sentímetra miðherji sem spilar með ungverska liðinu Uniqa Sopron. Sopron-liðið spilar í EuroLeague eða Meistaradeild kvenna í körfubolta og er með bestu félagsliðum ungverja í kvennakörfunni.

Határ var í EM-hópi Ungverjalands síðasta sumar og var þá með 5,3 stig og 4,0 fráköst að meðaltali á 11,7 mínútum.

Bernadett Határ hefur skorað 4,0 stig að meðaltali í leik á 9,6 mínútum í EuroLeague það sem af er í vetur en hún var með 14,8 stig og 7,4 fráköst að meðaltali í ungversku deildinni í fyrra þegar hún spilaði með uppeldisliði sínu MKB Euroleasing Vasas.

Það er ljóst að Bernadett Határ mun hafa talsvert forskot í fráköstunum í leiknum á móti Íslandi enda 20 sentímetrum hærri en hæsti leikmaður íslenska liðsins sem er miðherjinn Ragna Margrét Brynjarsdóttir (188 sm).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×