Lífið

„Alls ekki hollt fyrir 18 ára dreng að vera hrint út í þessa djúpu laug“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ágúst bent talar tæpitungulaust.
Ágúst bent talar tæpitungulaust. Vísir/gva
„Fyrsta rappið sem maður gerði var eitthvað krakkarapp sem maður gerði ellefu ára á skólaskemmtun í Árbæjarskóla,“segir rapparinn Ágúst Bent Sigbertsson sem er í ítarlegu viðtali í Hlaðvarpsþætti Kjarnans sem nefnist Grettistak og er í umsjón Grettis Gautasonar.

Þar ræddi hann ítarlega um Rottweiler-tímann, rappheiminn, eiturlyf, listamannalaun, djammið, og höfundarréttarmál sem tónlistarmenn þurfa að lifa með.

„Þarna vissi enginn á Íslandi hvað hip-hop var og fólk hélt að þetta væri bara einhverskonar danstónlist. Tveimur árum seinna uppgötvaði maður Wu-Tang og þá fór maður að rappa mun betur. Við stofnuðum síðan Rottweiler hunda svona árið 1999-2000 og fórum síðan að taka þetta mjög alvarlega þegar við unnum Músíktilraunir árið 2000,“ segir Bent.

Hann segir að það hafi ekki alltaf verið planið að verða tónlistarmaður og að myndlistin hafi fangað hans athygli frá barnsaldri.

Erpur, Lúðvík og Bent eru saman í XXX Rottweiler.Vísir/arnþór
„Ég lærði myndlist sem barn og hélt því áfram í FB. Þegar ég var lítið barn ætlaði ég alltaf að verða svona listamaður út á götu sem teiknaði fólk. Mér fannst það vera frábært starf þegar ég sá svoleiðis gaura út á Spáni. Ég fattaði síðar að þeir græða sennilega ekkert það mikið af peningum.“

Rottweiler hundar gáfu út vinsælustu plötuna á Íslandi árið 2001 og hún seldist í yfir 15.000 eintökum.

„Við sáum aldrei eitthvað rosalega mikið af peningum eftir þessa plötu. Fólk er núna að kvarta yfir plötusölu og það sé enginn að græða á því en í gamla daga græddi maður ekkert það mikið á því heldur. Peningarnir hafa alltaf verið í tónleikahaldi.“

Hvítt neftóbak

Um árið kom út heimildarmynd um XXX Rottweiler hunda.

„Þetta var helvíti neyðarleg mynd,“ segir Bent en til að mynda voru þeir félagar að taka hvítt duft í nefið af spegli í myndinni.

„Það var reyndar ekki kók, þetta var hvítt neftóbak sem fólk misskildi. Það kom alveg fram í myndinni að þetta hafi verið hvítt neftóbak en það kom ekkert fyrr en eftir kreditlistann og ég efast um að einhver hafi tekið eftir því. Á þeim tíma fannst okkur þetta bara absúrd og okkur datt ekki í hug að einhver héldi að við værum að taka svona mikið af kókaíni.“

Í hlaðvarpsþættinum kemur fram að Rottweiler hafi á sínum tíma fengið 100 bjórkassa frá Vífilfelli gefins.

Erpur og Bent árið 2003.vísir
„Ég veit nú ekki alveg hvað þetta voru margir kassar en ég man allavega þegar ég var 18 ára var herbergið mitt troðfullt af bjórkössum frá Carlsberg. Mamma var alltaf að koma inn og biðja mig í það minnsta að reyna fela þetta,“ segir Bent og bætir því við að umboðsmaður þeirra hafi stolið megninu af bjórnum af þeim.

„Við byrjuðum með umboðsmann sem sveik okkur svo heiftarlega að hann tók megnið af inneigninni okkar og var bara með standandi eftirpartý sem við vissum ekkert af.“

Bent segir að Rottweiler-tíminn hafi verið í raun mikið unglingafyllerí og sturlun.

„Þetta var þrælskemmtilegt en alls ekki hollt fyrir 18 ára dreng að vera hrint út í þessa djúpu laug. Ég held að ég hafi orðið alveg óþolandi. Unglingaveiki og stjörnustælar blönduðust þarna saman á mjög hræðilegan hátt, ég skil Bieberinn vel.“

Í þættinum barst talið að ólöglegu niðurhali.

„Auðvitað á fólk að ráða því dálítið sjálft hvað verður um þeirra efni en ég hef alltaf viljað gefa allt sem ég kem nálægt og sjálfur hala ég ólöglega niður á fullu. En eins og ég hef sagt þá er peningurinn hjá tónlistarmönnum í því að halda tónleika og því viltu í raun að sem flestir eigi plötuna þína.“

Bent segist ekki sjá mikinn pening frá streymisveitisíðum eins og Spotify og Tónlist.is.

Fær ekki krónu

„Ég fékk einu sinni gefins 5000 króna inneign á tónlist.is og prófaði að kaupa lag eftir mig aftur og aftur en ég fékk ekki krónu fyrir það sjálfur. Það er því einhver að græða á þessu en maður getur alveg eins gefið efnið sitt. Stefgjöld í útvarpi er síðan enn eitt svikið. Þeir sem fá borgað fyrir með stefgjöldum eru bara þeir sem eru spilaðir á Rás 1 og Rás 2. Þetta eru kannski tíu nöfn sem eru að fá tvær milljónir hver en síðan fá aðrir bara nokkra þúsundkalla.“

Ágúst Bent.vísir/einar
Bent talar um að að í dag sé mun sniðugara að sleppa því að gefa út tólf laga plötu sem inniheldur tvo „hittara“ og gefa bara út þessi tvö lög.

„Ég hlusta á allt íslenskt rapp í dag og mér finnst þetta allt mjög gott. Ég hlusta bara á nýtt rapp og fylgist mjög vel með öllu sem er að gera hér á landi. Gísli Pálmi er stórmerkilegur og það má skipta íslensku rappi í fyrir Gísla Pálma og eftir hann. Það er ekki bara tónlistin sem hann gerði, hann sparkaði í rassinn á öðrum í rappheiminum. Íslenskt rapp hefur sennilega aldrei verið jafn gott og akkúrat núna. Úlfur Úlfur, Gísli Pálmi, Emmsjé Gauti og Herra Hnetusmjör eru í miklu uppáhaldi hjá mér.“

Talið barst síðan að erjum innan rappheimsins og að þær væru í raun að hverfa. Það muna kannski sumir eftir erjum milli Emmsjé Gauta og Reykjavíkurdætra. Bent hafði þetta að segja um þær erjur.

„Fólk var eitthvað svo óánægt með Reykjavíkurdætur með því að hafa ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur og sagt að hann væri að verða sköllóttur, en mér fannst það bara gott hjá þeim. Rapp á ekki að vera um einhverjar menningarlegar rökræður, heldur frekar meira, hey fokkaðu þér, þú ert að verða sköllóttur. Það er hip-hop.“

Rottweiler hundar og sumir íslenskir rapparar hafa í gegnum tíðina komist upp með það að segja hluti sem aðrir kannski geta ekki.

„Erpur og Gauti gerðu t.d. lagið Elskum þessar mellur. Það er bara þannig að ef þú ert í ákveðnum félagsskap og styður kannski ákveðna flokka, þá er þetta satíra eða ádeila. Hulli [Hugleikur Dagsson] talar nokkuð um þetta í sínu uppistandi og þar talar hann um hvað hann kemst upp með að segja á móti því sem Gillz [Egill Einarsson] kemst upp með að segja. Hann má ekki segja neitt en Hugleikur má segja hvað sem er. Það er bara útaf því að hann er í góða liðinu og Gillz er í vonda liðinu.“

Bent á sínum tíma. Hann hefur verið einn vinsælasti rappari á landinu í um 15 ár.vísir/stefán
Á dögunum gerði Bent símahrekk á FM957 þar sem hann hringdi í mömmu sína og tilkynnti henni að hann væri samkynhneigður. Eftir það fékk hann smá skít yfir sig.

Sjá einnig: Bent tilkynnti móður sinni að hann væri kominn út úr skápnum

„Ég sá eina neikvæða athugasemd við Vísisfréttina en þeir sem hlustuðu á hrekkinn sáu að ég var bara að stríða mömmu minni og snérist ekkert um það að það væri eitthvað slæmt um það að vera samkynhneigður. Það kommentaði einhver af hverju ég hefði ekki bara hringt og sagst vera á fullu með tvítugum stelpum. En það er bara útaf því að þetta er símat og ég þarf að ljúga. Ef ég hefði hringt í mömmu og sagst vera með tvítugum stelpum, þá væri það enginn hrekkur, það er bara dagsatt.“

Djammið og eiturlyfin

Bent segist vilja afglæpavæða fíkniefni. „Ég er fylgjandi því að gera allt löglegt. Ástæðan fyrir því að fólk er ekki að sprauta sig út á götu er ekki útaf því að það er ólöglegt. Ég held að fólk langi bara ekki til þess. Ísland þykist alltaf vera svo framarlega á merinni þegar kemur að því að vera eitthvað líbó en við erum það bara alls ekkert. Við hneykslum bara meira en flestir. Ég veit ekki hvað gerist í framtíðinni, það gengur t.d. ennþá illa hjá Sjálfstæðismönnum að fá áfengi í verslanir. Þrátt fyrir að það gangi alveg í öllum öðrum löndum í heiminum, þá er Íslendingar enn sannfærðir um að það yrði allt vitlaust ef það myndi gerast.“

Bent segist hafa orðið fyrir miklum áhrifum úr rappheiminum sem ungur maður.

„Maður á auðvitað ekki að vera segja frá þessu en kvikmyndir og tónlistamenn hafa ótrúlega mikil áhrif á mann þegar maður er ungur. Ég man þegar ég var unglingur og var að hlusta á þessi kannabislög með Cypress Hill og horfandi á myndina Friday þá langaði mann helvíti mikið til að prófa þetta. Í mínum lögum hef ég mikið talað um dóp og drykkju en mér finnst ég ekki hafa fegrað það neitt, ég læt sorann fylgja með. Þú verður líka að láta þynnkuna, þunglyndið og niðurtúrana fylgja með.“

Bent fer í gegnum ferilinn í viðtalinu.Vísir/gva
Hann segist hafa prófað kannabisefni í fyrsta skipti inni í tjaldi á útihátíðinni Halló Akureyri árið 1998.

„Maður var bara með Sódóma með Sálinni í græjunum og svo vorum við líka að éta helling af Ripped Fuel. Það var aðal sportið á þessum tíma,“ segir Bent og bætir því við að djammið í dag sé mun rólegra.

„Það eru mun færri slagsmál niðri í bæ. Í gamla daga var allt út í áflogum allsstaðar. Þegar ég var unglingur var miðbærinn troðfullur af unglingum sem voru ekki einu sinni að reyna komast inn á skemmtistaði, heldur bara þarna til að drekka úti og lenda í slagsmálum. Það sést ekki lengur. Internetið hefur breytt þessu mjög mikið. Í dag þarftu ekkert að fara niðrí bæ til að hitta stelpu úr öðru hverfi, þú spjallar bara við hana á Facebook. Síðan hefur fólk bara fengið meiri fræðslu og heimurinn er bara alltaf að verða stilltari og betri.“

Talið barst að lokum að djammviskubitinu.

„Minnisleysið hjálpar vissulega við djammviskubitið. Auðvitað er hollt að fá smá djammviskubit og niðurtúrinn, kvíðinn og eftirsjáin er bara partur af þessu. Þú verður að hafa einhverja bremsu.“

Hér að neðan má hlusta á viðtalið í heild sinni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×