Lífið

Bókamessa í borginni

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Það verður mikið fjör á Bókamessunni. Lára Aðalsteinsdóttir og Bryndís Loftsdóttir voru í óða önn að undirbúa messuna þegar ljósmyndara bar að garði.
Það verður mikið fjör á Bókamessunni. Lára Aðalsteinsdóttir og Bryndís Loftsdóttir voru í óða önn að undirbúa messuna þegar ljósmyndara bar að garði. Fréttablaðið/GVA
Hin árlega bókamessa fer fram í Ráðhúsinu um helgina en þetta er í fimmta skipti sem hún er haldin. „Þar koma saman allir útgefendur landsins með nýjustu bækurnar. Fólk getur séð á einum stað allt sem hefur komið út í ár,“ segir Lára Aðalsteinsdóttir, verkefnastjóri Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Boðið verður upp á fjölbreytta bókmenntadagskrá fyrir fólk á öllum aldri.

„Þetta er einstakt tækifæri til að hitta rithöfundana og útgefendur. Það verður líka hægt að fá áritanir hjá höfunum vilji fólk áritaðar bækur,“ segir Lára.

Um 700 bækur eru gefnar út í ár og því nokkuð ljóst að það verður eitthvað fyrir alla á Bókamessunni. „Það eru um 700 bókatitlar gefnir út í ár. Þeim fjölgar á milli ára þrátt fyrir hærri virðisaukaskatt. Við erum öll afskaplega hissa og ánægð yfir þessum metnaði,“ segir Lára. „Íslendingar eru bókmenntaþjóð og ætla ekkert að skrifa sig út með það.“

Ýmsar uppákomur verða alla helgina; upplestrar, sögustundir, bókaspjall, leikir og getraunir svo eitthvað sé nefnt.

„Það verður ýmislegt í boði, ljúffengt smakk, föndursmiðja og margt skemmtilegt. Við hvetjum alla til þess að mæta, það verður líf og fjör alls staðar þar sem við fundum pláss í Ráðhúsinu.“ Fjölbreytt dagskrá er fyrir börn og fullorðna.

Bókasýningin verður í Tjarnarsalnum og þar verður einnig pop-up kaffihús Kaffitárs. Bókmenntadagskráin verður á þremur stöðum í Ráðhúsinu: í borgarstjórnarsalnum á 2. hæð, í salnum þar sem áður var kaffihús Ráðhússins á 1. hæð austan megin og í matsal Ráðhússins á 1. hæð . Einnig verður dagskrá og sýningarborð á gönguásnum á 1. hæð. Opið er bæði laugardag og sunnudag frá 12-17.

Undanfarin ár hafa um 10-20 þúsund manns sótt messuna. "Við hvetjum auðvitað alla til þess að mæta og gera upp hug sinna varðandi jólabækurnar í ár,“ segir Lára.

Nánari tímasetningar á dagskrá er að finna hér. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×