Sport

Freydís Halla aftur á verðlaunapalli í Bandaríkjunum | Gull í gær og silfur í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Freydís Halla Einarsdóttir.
Freydís Halla Einarsdóttir. Mynd/Skíðasamband Íslands
Landsliðskonan í alpagreinum Freydís Halla Einarsdóttir byrjar tímabilið vel en hún keppti á sínum fyrstu mótum í gær og í fyrradag. Freydís Halla komst á verðlaunpall á báðum mótunum.

Bæði mótin voru svigmót og fóru fram í Sunday River sem er í Maine fylki í Bandaríkjunum. Freydís hóf nám við Plymouth State háskóla í Bandaríkjunum í haust og keppir þar fyrir skíðalið skólans.

Freydís Halla vann fyrra mótið í gær þar sem hún var með besta tímann í báðum ferðum. Í seinna mótinu í dag þá endaði Freydís í öðru sæti en þá var hún með besta tímann í seinni ferðinni.

Stelpurnar í sætum tvö til fimm á fyrra mótinu eru allar framar en Freydís á heimslista en hún náði þá sínum besta árangri á ferlinum þegar litið er á FIS-punkta.

Bandaríska stelpan  Mardene Haskell var aðeins þrettán sekúndubrotum á undan Freydísi í mótinu í dag en kanadísk stelpa var í öðru sæti þegar Freydís vann mótið á mánudagskvöldið.

Freydís Halla er þar með búin að fá gull og silfur í fyrstu tveimur mótunum auk þess að ná besta tímanum í þremur af fjórum ferðum. Frábær byrjun á tímabilinu hjá Garðbæingnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×