Sport

Vann yfirburðarsigur á pabba sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafn Kumar Bonifacius og faðir hans Raj K. Bonifacius.
Rafn Kumar Bonifacius og faðir hans Raj K. Bonifacius. Mynd/Raj K. Bonifacius
Rafn Kumar Bonifacius úr Hafna- og Mjúkboltafélagi Reykjavíkur og Anna Soffía Grönholm úr Tennisfélagi Kópavogs tryggðu sér sigur á Stórmót TSÍ í dag en mótið fór fram í Kópavogi.

Anna Soffía Grönholm og Rafn Kumar Bonifacius hafa bæði verið að spila mjög vel á þessu tímabili og eru greinilega yfirburðarspilarar í dag.

Anna Soffía vann Söru Lind Þorkelsdóttur úr Víkingi í úrslitaleiknum 6-0 og 6-0. Þetta er fjórði meistaraflokkstitillinn hjá Önnu Soffíu í ár og  fyrsti úrslitaleikur Söru Lindar á Stórmóti TSÍ.    

Rafn Kumar Bonifacius hafði mikla yfirburði á móti föður sínum, Raj K. Bonifacius úr Víkingi,  og vann 6-1 og 6-2. Þetta var annað mótið í röð sem feðgarnir keppa til úrslita.

Með sigrinum á stórmóti TSÍ hefur Rafn Kumar tryggt sér sigur sem Stigameistari TSÍ fjórða árið í röð þrátt fyrir að tvö mót séu eftir á árinu. Mótin sem eru eftir eru bikarmót TSÍ og Meistaramót TSÍ.   

Rafn Kumar tryggði sér sæti í úrslitaleiknum með því að vinna Teit Marshall úr Fjölni, 6-2, 6-0 en Raj vann Vladimir Ristic úr Tennisfélag Kópavogs í sínum undanúrslitaleik 6-4 og 6-3.

Anna Soffía Grönholm og Sara Lind Þorkelsdóttir.Mynd/Raj K. Bonifacius



Fleiri fréttir

Sjá meira


×