Lífið

Gummi Ben lýsir lokaspretti Almars í kassanum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gummi Ben hefur lýst íþróttaviðburðum af fjölmörgum tegundum. Þetta verður í fyrsta skipti sem hann lýsir listgjörningi og eiga áhorfendur von á góðu.
Gummi Ben hefur lýst íþróttaviðburðum af fjölmörgum tegundum. Þetta verður í fyrsta skipti sem hann lýsir listgjörningi og eiga áhorfendur von á góðu.
Allt stefnir í að Almar Atlason nái markmiði sínu í fyrramálið klukkan 9. Myndlistarneminn 23 ára hefur haldið kyrru fyrir í glerkassa í Listaháskólanum síðan klukkan 9 á mánudagsmorgun en markmið hans var að dvelja þar í eina viku. Óhætt er að segja að verkefni hans hafi vakið athygli, bæði hér heima og erlendis, en Almar hefur verið nakinn í beinni útsendingu á YouTube síðan hann fór inn í kassann.

Vísir hefur fylgst grannt með gangi mála hjá Almari undanfarna viku og mun gera lokametrunum góð skil. Knattspyrnulýsandinn Gummi Ben mun lýsa síðustu mínútum Almars í kassanum en meðfram því verður Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmaður Körfuboltakvölds, með sérfræðinga í myndveri þar sem farið verður yfir viku Almars í kassanum.

Útvarpsmaðurinn og lýsandinn Rikki Gje verður svo á staðnum þegar Almar yfirgefur kassann og mun taka fyrsta viðtalið við nemann. Verður fróðlegt að sjá hvað Almar hefur að segja eftir vikuna í kassanum. Suðurnesjasjarmörinn Garðar Örn Arnarsson stýrir útsendingunni.

Bein útsending hefst á Vísi klukkan 8:30 í fyrramálið, mánudag.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×