Lífið

Mæðgur á Siglufirði saman með krabbamein

Sveinn Arnarsson skrifar
Sjöfn Ylfa, til hægri, og Kristín móðir hennar til vinstri. Kristín hefur lokið lyfjameðferð en Sjöfn Ylfa, dóttir hennar fer í síðustu lyfjameðferð sína í janúar.
Sjöfn Ylfa, til hægri, og Kristín móðir hennar til vinstri. Kristín hefur lokið lyfjameðferð en Sjöfn Ylfa, dóttir hennar fer í síðustu lyfjameðferð sína í janúar. Mynd/Aðsend
Sjöfn Ylfa Egilsdóttir, 27 ára gömul tveggja barna móðir, greindist með krabbamein í brisi stuttu eftir fæðingu yngra barns hennar.  Hálfu ári áður hafði móðir hennar einnig greinst með krabbamein. „Við höfum gengið í gegnum þetta saman og verið mikill styrkur fyrir okkur,“ segir Sjöfn Ylfa.

Sjöfn Ylfa og öll hennar fjölskylda er búsett á Siglufðrði. Hún á tvö börn með unnusta sínum; þriggja ára soninn Ásgeir Úlf og hina níu mánaða gömlu Franziscu Ylfu. „Ég greinist rétt fyrir verslunarmannahelgi með krabbamein í brisi sem hafði síðan dreift sér út í lifrina. Þar fundust illkynja frumur. Ég fór því strax í lyfjameðferð eftir verslunarmannahelgina og við vonum það besta,“ segir Sjöfn Ylfa sem tekur sjúkdómi sínum af æðruleysi. „Börnin mín eru mér allt og ég lifi fyrir þau í dag. Svo er unnusti minn líka stoð mín og stytta og hefur gefið mér mikinn styrk í baráttunni“

Börn Sjafnar Ylfu: Ásgeir Úlfur er þriggja ára og Franzisca ylfa er 9 mánaða gömul.
Heimurinn hrundi í smá stund

Hún segist ekki geta lýst þeim tilfinningum sem brutust um í henni þegar hún fékk þessar fréttir, 27 ára gömul, að í henni væru illkynja krabbameinsfrumur í brisi sem hefðu náð að breiðast út í lifrina og að það þyrfti að grípa til ráðstafana strax. „Það er óneitanlega sjokk að fá þessar fréttir. Ég á mjög erfitt með að lýsa þessu. Það var eins og lífið hefði hrunið í smástund fyrir framan mig. Ég grét og grét fyrst eftir að ég fékk fréttirnar sen svo þýðir ekkert að missa sig í neikvæðni.  Ég á þessi börn sem ég lifi fyrir. Þegar ég fékk símtalið um að ég væri með krabbamein þá svaraði ég til baka að  væri bara allt of ung til þess að það gæti verið rétt. En það er víst ekki spurt um aldur, hann skiptir víst engu máli í þessu,“ segir Sjöfn Ylfa.

„Ég var búinn að vera með skrýtna verki í annarri síðunni í tvær vikur áður en ég fer til læknis. Svo fór ég í myndatökur inni á Akureyri og þá kom í ljós að lifrin á mér hafði stækkað svo mikið að hún náði niður fyrir nafla. Það sást varla í hreinan díl fyrir frumum. Þannig að þeir vildu fá mig sem fyrst í lyfjameðferð eftir greiningu.“

Sjöfn Ylfa mun enda meðferðina í janúarmánuði og þá verður staðan metin á nýjan leik. Hún hlakkar til þess tíma og segir þetta bara verkefni í að ná bata aftur. Hana dreymir um að fara að vinna aftur á nýju ári. „Læknarnir vildu meina að það væri að nást góður árangur í baráttunni í síðustu skoðun svo ég er full af jákvæðni.

Sjöfn Ylfa hefur alltaf verið baráttujaxl
Mun berjast áfram

Móðir hennar, Kristín Úlfsdóttir, greindist með brjóstakrabbamein í mars síðastliðnum. Þær mæðgur hafa því gengið í gegnum lyfjagjöf saman frá því Sjöfn Ylfa greindist. „Móðir mín kláraði lyfjagjöf nú fyrir mjög stuttu síðan. Það má segja að við séum miklu nánari eftir þessar hremmingar. Þó við höfum alltaf verið mjög nánar þannig séð, þá hefur þetta þjappað okkur mjög saman og sameinað okkur. Við höfum stutt hvor aðra og ég hef haft ofboðslega gott af því hversu mikið mamma hefur stutt mig,“ segir Sjöfn Ylfa. „Hún er ofboðslega sterkur karakter og hraustur einstaklingur.“

Þó gefið hafi á bátinn síðustu misseri hjá Sjöfn heldur hún ótrauð áfram lífinu. Hún hefur ávallt verið mjög virkur einstaklingur, hefur haft gaman að allri útiveru og hreyfingu og lætur ekki slæm veður stoppa sig hvað það varðar. Hún segir það hafa aldrei skipt miklu máli hvernig viðrar, hún viji frekar vera úti að leika sér og gera eitthvað. Upp á síðkastið hafi hún síðan verið mikið úti að leika með börnin eftir að þau komu í heiminn. „Það kannski hefur sést á heimilinu að ég er mikið úti, stundum er stofan ekki alveg hundrað prósent hrein. En það er bara þannig. Ég hef aldrei verið týpan sem situr inni og hangi við eldhúsgluggann. Það ætla ég  mér heldur ekkert að gera núna í þessari baráttu. Ég læt þetta ekki hafa áhrif á mig.“

Sjöfn Ylfa hefur alltaf verið baráttujaxl að eigin sögn og tekur þetta eins og hverju öðru hundsbiti. Það þýði ekki neitt að demba sér í eitthvað volæði heldur skipti miklu máli fyrir hana að taka þessu með brosið að vopni og hafa gaman að lífinu og leika sér með börnunum í helst öllum frístundum.



Sjöfn Ylfa ásamt Hildi Líf, bestu vinkonu sinni, áður en hún greindist með krabbamein.Mynd/úr einkasafni
Samfélagið stendur við bakið á henni

Haldnir voru styrktartónleikar í kirkjunni á Siglufirði síðastliðinn miðvikudag fyrir ungu fjölskylduna. Siglufjörður er ekki stórt samfélag, telur rúmlega 1.200 manns. Þetta er eitt af þessum margrómuðu sjávarplássum þar sem flestir þekkja flesta og samskipti íbúa eru æði mikil. Oft er talað um að það þurfi samfélag til að ala upp barn og má vel vera, en einnig eru lítil samfélög mun samheldnari en þau stærri þar sem þú týnist í fjöldanum. Þetta sýndi sig svo um munaði á styrktartónleikunum þegar kirkjan í bænum fylltist aftur í dyr.

Sjöfn Ylfu fannst ótrúlegt að sjá þann mikla samhug sem birtist í mætingunni á tónleikana. „Þegar ég horfði yfir allan hópinn í stútfullri kirkju var eins og hjartað hefði stöðvast í smá sund. Maður var orðlaus yfir því hve margir standa með manni. Ég er mjög þakklát fyrir þann hlýhug samfélagsins sem við höfum séð. “ sagði Sjöfn Ylfa.  „Þá var gott að vera með föður minn mér við hlið til að halda smá ræðu. Ég hefði ekki getað komið upp orði.“

Sjöfn Ylfa á eftir að ganga í gegnum síðustu lyfjameðferðina. Eins og fyrr segir verður ákvörðun tekin eftir það með framhaldið. Hún þorir ekki að segja það staðfastlega en auðvitað vonar hún að krabbameinið fari og komi aldrei aftur. „Þegar maður fær krabba einu sinni er maður auðvitað undir eftirliti og í einhverjum áhættuhópi fyrir að fá þetta aftur. En maður vonar það besta. Hinsvegar er það alveg rétt að maður býst við hinu versta,“ segir Sjöfn Ylfa en minnir á að það skipti mestu máli að vera jákvæður og hafa trú á verkefninu. „Það sem skiptir öllu máli er að vera brosandi og gera það sem maður hefur verið að gera áður. Um leið og maður heldur bara áfram og er jákvæður getur maður náð langt.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×