Lífið

Nova eyðir út „óviðeigandi“ myndum frá Dóra DNA

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Myndböndin vöktu hörð viðbrögð og hafa ýmsir krafist þess að málið verði tilkynnt til barnaverndar.
Myndböndin vöktu hörð viðbrögð og hafa ýmsir krafist þess að málið verði tilkynnt til barnaverndar.
Fjarskiptafyrirtækið Nova hefur eytt út myndböndum sem grínistinn Dóri DNA birti á Snapchat-aðgangi þess í gær. Myndirnar vöktu hörð viðbrögð en á þeim má sjá hvernig Dóri réttir börnum sínum hníf og byssu.

„Það er sérkennilegt að fara að sofa og vakna upp í atburðarrás úr eigin leikriti,“ skrifar Dóri á Twitter og vísar þannig til sýningu hans og Sögu Garðarsdóttur, „Þetta er grín, án djóks“ sem fjallar um það hvenær grín er fyndið og hvenær það fer yfir mörkin.

Málið hefur mikið verið rætt á samfélagsmiðlum í dag og sitt sýnist hverjum. Saga Garðarsdóttir sá sig knúna til að taka upp hanskann fyrir félaga sinn og tók fram að um væri að ræða leikmuni; byssu úr plasti og bitlausan hníf. „Halldór er frábær faðir,“ skrifar hún á Facebook.

Sjá einnig: Salka Sól fær fimmtíu þúsund en aðrir rándýran farsíma

Nova tjáði sig jafnframt um málið á Facebook og sagðist ekki ritskoða Snapchat. Engu að síður er búið að eyða út myndunum. „Við höfum átt gott samstarf við Dóra DNA. Við ritskoðum ekki snappið, þetta er bein útsending, raunveruleikasjónvarp og dagskrárgerð af því fylgja áskoranir. Við tökum undir umræðuna að á Nova-snappinu í gær var því miður óviðeigandi atriði og við biðjumst afsökunar á því.“

Símafyrirtækið fær reglulega listamenn til að halda úti Snapchat-reikningi þess en í gær voru það þau Dóri, Saga, Björn Bragi og Steindi sem fengu það verkefni. Í janúar síðastliðnum var söngkonan Salka Sól Eyfeld beðin um að sjá aðganginn í einn dag í skiptum fyrir fimmtíu þúsund krónur.  Hún hafnaði því þó eftir að hafa fengið upplýsingar um að fyrirrennarar hennar hefðu fengið mun betur borgað, eða iPhone 6 farsíma að launum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×