Lífið

Egill og Steindi leiða saman hesta sína

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Steindi Jr. og Egill Ólafsson flytja lokalag áramótaskaupsins í ár. Hér eru þeir alsælir við tökur á Skaupinu.
Steindi Jr. og Egill Ólafsson flytja lokalag áramótaskaupsins í ár. Hér eru þeir alsælir við tökur á Skaupinu.
Árið 2015 var klárlega ár rappsins og það var ekki hægt að horfa fram hjá því, þannig að þetta er rapp en samt mjög poppað og því eiga allir að geta verið með,“ segir Steinþór Hróar Steinþórsson, betur þekktur sem Steindi Jr., um lokalagið í Ára­mótaskaupinu í ár.

Lagið ber titilinn Allir með og nýtur Steindi liðsinnis Stuðmannsins og sjóarans síkáta Egils Ólafssonar, en þótt þeir tveir séu að vissu leyti ólíkir listamenn gekk samstarfið mjög vel. „Ég hef unnið með Steinda áður, hann er skemmtilegur og er alveg sér á parti. Ég er ánægður með að þetta hafi verið borið undir mig,“ segir Egill um Steinda. „Það var mjög mikill heiður að vinna með Agli og er hann að mínu mati einn flottasti listamaður þjóðarinnar,“ bætir Steindi við.

Lagið er samið af StopWaitGo, en tríóið samdi jafnframt tvö vinsælustu lögin í undankeppni Eurovision á árinu. Teymið hefur verið Steinda innan handar með mörg hans vinsælustu laga og má þar nefna lögin Djamm í kvöld og Dansa það af mér. „Þegar við vorum uppi í stúdíói að búa til lagið og textinn var að fæðast, fórum við að kasta fram nöfnum um hvaða rödd gæti hentað viðlaginu og þegar nafn Egils kom upp þá varð ekki aftur snúið. Þetta er lokalag skaupsins og það þarf að vera stórt og það er enginn stærri en Egill Ólafs,“ segir Steindi. Egill fer einnig með stórt hlutverk í myndbandinu. „Ég held að fólki muni hafa mjög gaman af því að sjá Egil á skjánum á gamlárskvöld, enda algjör stórleikari.“

Egill segist halda að lagið geti vakið mikla lukku. „Ég hef aldrei haft nef fyrir hit-lögum en mér finnst þetta vera algjör eyrnaormur. Það er mjög söngvænt og dansvænt heyrist mér og textinn er á vissan hátt hvetjandi, það er að segja ef maður slítur hann úr samhengi við raunverulegt innihald,“ segir Egill. Spurður út í hvort Stuðmannablær sé yfir laginu segir Egill svo ekki vera. „Nei, þetta er annars eðlis. Steindi rappar þarna og það hefur nú ekki verið mikið um slíkt hjá Stuðmönnum. Að vísu rappaði Flosi Ólafsson í laginu Fiddi bátsmaður og Birna sprettur, það má því alveg segja að Steindi sé ákveðin framlenging af Flosa. Hann er ef til vill Flosi dagsins í dag,“ bætir Egill við léttur í lund. Steindi er gamall rappari og því ekki alls ókunnur að láta rímurnar flæða.

Steindi, sem söng lokalag Ára­mótaskaupsins árið 2013 ásamt Baggalútsmönnum, semur texta lagsins. „Þegar ég sem texta þá er það fyrsta sem ég geri að ákveða viðfangsefni í laginu og svo sem ég brandarana og söguna og enda svo á textanum,“ segir Steindi, sem vildi ekki gefa upp hvað lagið fjallar um að svo stöddu en vonar að fólki taki vel í það og allir verði með.

Eins og fyrr segir er lagið frumsamið og er Steindi alveg á því að lokalög í Áramótaskaupinu eigi að vera frumsamin. „Persónulega finnst mér lokalagið eiga að vera frumsamið, mér finnst það eiga að vera skylda. Mér finnst ekki nógu mikill metnaður í því að þýða bara einhvern texta fyrir lokalagið en á móti getur verið hættulegt að koma með frumsamið lag sem enginn hefur heyrt og kannast því ekki við og þarf því að vera mjög grípandi og ná áhorfendunum strax. Við höfum legið yfir laginu i mjög langan tíma og vonum að það heppnist,“ segir Steindi um lagið.

Tökur á Skaupinu gengu mjög vel en Steindi segir að mikill hraði hafi verið í tökunum. „Við lögðum upp með að gera skemmtiþátt fyrir alla fjölskylduna og reyndum því að halda pólitík í lágmarki. Það hefur rosalega margt gengið á síðustu daga og það þurfti að hoppa út í nokkur pikköppskot til að fullkomna skaupið,“ segir Steindi. „Ég bið vinsamlegast pólitíkusa um að hætta að skíta á sig og listamenn að bíða með alla listræna gjörninga fram í janúar því búið er að læsa Skaupinu,“ bætir Steindi við og hlær.

Kristófer Dignus leikstýrir Skaupinu í ár en hann leikstýrði Skaupinu einnig árið 2013. Handritshöfundarnir eru þau Guðjón Davíð Karlsson leikari, Katla Margrét Þorsteinsdóttir leikkona, Atli Fannar Bjarkason, ritstjóri Nútímans, og Steindi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×