Lífið

Eivør frumflytur nýtt lag á Vísi: „Textarnir komu til mín bæði á ensku og færeysku“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Eivør Pálsdóttir er mjög vinsæl hér á landi.
Eivør Pálsdóttir er mjög vinsæl hér á landi. vísir
Eivør Pálsdóttir sendi frá sér plötuna Slør fyrir skemmstu. Eivør kíkti í heimsókn til Loga Bergmann í vikunni og söng lagið Verð mín  á æfingu sem er af nýju plötunni. Eivør mun síðan taka jólalagið Dansaðu vindur í þættinum í kvöld.

Titillinn á plötunni hefur sömu merkingu á íslensku og færeysku og merkir einfaldlega slör eða slæða. Platan hefur að geyma glæný lög sem Eivør flytur á móðurmálinu, færeysku. Slør fylgir þar eftir plötunni Bridges sem kom út fyrr á þessu ári og var flutt eingöngu á ensku.

Á meðan platan Bridges var létt og angurvær er Slør hrá og íhugul. Innblásturinn að Bridges var heimþráin, vinátta og ást. Slør, hins vegar, fjallar um aðskilnað, þránna eftir því að finna sinn stað og leitina að frelsinu. Líkt og brúðarslör táknar platan í senn hamingju og að gefa sig einhverjum á vald. 

Eivør útskýrir það hvers vegna hún samdi plöturnar tvær samtímis á þennan hátt: „Á meðan ég var að skrifa lögin komu textarnir til mín bæði á ensku og færeysku – líkt og spegilmyndir. Flest lögin voru því skrifuð í pörum. ”

Slør og Bridges er því í senn ein heild og tvær mjög ólíkar plötur en söngkonan verður með tónleika í Hörpu í janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×