Lífið

Standa fyrir skiptidótamarkaði fyrir börn í Gerðubergi

atli ísleifsson skrifar
Börn í Háteigsskóla söfnuðu gömlum leikföngum til að nota sem grunn á markaðinum.
Börn í Háteigsskóla söfnuðu gömlum leikföngum til að nota sem grunn á markaðinum. Mynd/UNICEF
Ungmennaráð UNICEF á Íslandi stendur fyrir skiptidótamarkaði í menningarmiðstöðinni Gerðubergi á morgun. Börnum er boðið að koma á markaðinn með leikföng, bækur og spil sem þau eru hætt að leika sér með, leggja þau inn í leikfangasafn ungmennaráðsins og velja sér önnur leikföng í staðinn.

Börn í Háteigsskóla söfnuðu gömlum leikföngum til að nota sem grunn á markaðinum, sem hefst klukkan 13 á morgun, sunnudag, og stendur til klukkan 16. 

Hjördís Eva Þórðardóttir, réttindafræðslufulltrúi UNICEF á Íslandi, segir að leikur sé mikilvægur þroska barna og hafi öll börn gaman að því að leika sér. „Það skiptir engu máli hvar börn búa eða hvaða tungumál þau tala, leikur sameinar öll börn. Á þessum árstíma er einnig mikilvægt fyrir fjölskyldur að finna stund milli stríða í amstri dagsins. Með því að leika við börnin okkar sendum við þeim mikilvæg skilaboð um að þau séu mikilvæg og tíma okkar verð.“

Á markaðnum munu fulltrúar í ungmennaráðinu leika við börnin á sama tíma og þau fræða þau um endurnýtingu, sjálfbærni og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×