Lífið

Brunar í borgina á spænskunámskeið

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Ég er að prófa beitningu aftur eftir fimmtíu og þriggja ára hlé,“ segir Gísli brattur.
„Ég er að prófa beitningu aftur eftir fimmtíu og þriggja ára hlé,“ segir Gísli brattur. Mynd/Úr einkasafni
Gísli S. Einarsson er að koma heim úr lauginni og trimminu og hefur varla ráðrúm til að hengja upp handklæðið sitt fyrir ágangi blaðamanns sem vill fá hann í viðtal vegna sjötugsafmælisins í dag.

Hann er annars að fást við línubeitningu þessa dagana, fer milli klukkan fimm og sex á morgnana og er að fram á hádegi. „Ég er að prófa beitningu aftur eftir fimmtíu og þriggja ára hlé,“ segir hann glaðlega og bætir við: „Það er bara tilfallandi, gæftir hafa verið svo góðar að undanförnu og mikið róið.“

Gísli á fjölbreyttan starfsferil að baki, sat um tíma á hinu háa Alþingi, var bæjarstjóri á Akranesi í fjögur ár og vann lengi hjá Sementsverksmiðju ríkisins, fyrst sem verkamaður, síðar yfirverkstjóri og við tölvustýrt vélaviðhald. Hann tók snemma til hendinni. 

„Ég var 13 ára ráðinn háseti á bát frá Akranesi og var á síldveiðum fyrstu sumurin. Var svo heppinn vorið 1959 að fá pláss hjá Ingimundi Ingimundarsyni skipstjóra og var á hlutarhæsta bát frá Akranesi það árið. Það var nokkuð gott fyrir stráktitt að vera með árslaun verkamanns eftir tvo mánuði. Fyrstu tvö sumurin var nótin dregin inn á höndum.  Svo kom kraftblökkin, það var mikill munur.“

Gísli fór í vélvirkja- vél-og skipstjórnarnám á sínum tíma og hann er enn að læra.  

„Ég hef verið síðustu fjögur og hálft ár úti í Noregi sem steypustöðvarstjóri og lærði þar steypublöndun, kom bara heim núna í október. Frúin var með mér í tvö og hálft ár úti og við áttum sælutíma þar. Vorum norður í Alta, þar er afskaplega kyrrt og fallegt veðurlag en frostið fer niður í svona 32 gráður. Þó er eiginlega kaldara hér í tíu stiga frosti og vindi.“

Tvisvar í viku brunar Gísli í borgina á spænskunámskeið, reyndar ekki í fyrsta skipti,  hann kveðst hafa lært smávegis í Málaskólanum Mími fyrir mörgum árum. „Nú ætla ég að reyna að fullkomna þetta þannig að ég geti spjallað við fólk, ekki bara pantað mér bjór og mat.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×