Lífið

Síungt félag sem heldur uppi kraftmiklu starfi

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Kristín hefur ekki gengið í Kvenfélag Þistilfjarðar en verið hollvinur þess og er nú að vinna að útgáfu rits um það.
Kristín hefur ekki gengið í Kvenfélag Þistilfjarðar en verið hollvinur þess og er nú að vinna að útgáfu rits um það. Mynd/Úr einkasafni
„Kvenfélag Þistilfjarðar var stofnað á Svalbarði á jóladag árið 1915. Það er því hundrað ára en síungt og heldur uppi kraftmiklu starfi,“ segir Kristín Sigfúsdóttir, menntaskólakennari á Akureyri.

 „Ég hef verið að skoða fundargerðarbækur kvenfélagsins frá upphafi því við ætlum að gefa út nett rit um sögu þess og þar sést glögglega hvaða stoð það hefur verið fyrir samfélagið. Drifkraftur í skemmtanalífi sveitarinnar, góðgerðastofnun og félagsþjónusta – allt í senn.“ 

Kristín ólst upp á Gunnarsstöðum í Þistilfirði en flutti það ung að heiman að hún gekk aldrei í kvenfélagið, heldur hefur verið hollvinur þess og oft sótt samkomur sem það hefur haldið.



„Mamma, Sigríður Jóhannesdóttir, bar hag kvenfélagsins mjög fyrir brjósti, hún sagði að það mætti aldrei hætta að endurnýja sig og fylgjast með tímanum – og það hafa orðið áhrínsorð. Ungu konurnar ganga í félagið og samlagast ágætlega þeim eldri og reyndari.

Það er alltaf létt yfir fundum, ótal námskeið eru haldin og farið í ferðalög, jafnvel til útlanda. Árviss jólavaka var haldin nú á aðventunni og farið í skemmtilega heimsókn til íbúa á Dvalarheimilinu Nausti á Þórshöfn, sungið með þeim og dansað. Formaður félagsins er Bjarnveig Skaftfeld á Ytra-Álandi.“



Kristín segir Kvenfélag Þistilfjarðar hafa lagt mörgum góðum málefnum lið í gegnum tíðina, bæði í heimabyggð og á landsvísu. Meðal þess sem hún rakst á í fundargerðabók er að það hafi lagt fé til húsnæðis sem byggt var við Arnarhvol fyrir heimilislausar konur í Reykjavík árið 1925 og stutt við skólabóka- og fatakaup ef aðstæður voru bágar á bæjum í sveitinni.

Nú er afmælisfagnaður framundan á Svalbarði í Þistilfirði á þriðja í jólum, veisla og dagskrá, meðal annars söngleikur sem sveitungunum er boðið til. „Á eftir er svo  dansleikur og þar skemmta allir aldurshópar sér saman,“ segir Kristín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×