Lífið

Fyrir verðandi mæður og þreytta feður

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Við afhendingu stólanna. Valgeir Ólafsson verslunarstjóri, Egill Reynisson og Gauti Reynisson, eigendur Húsgagnahallarinnar, Anna S. Vernharðsdóttir, deildarstjóri á fæðingarvakt, og Edda Sveinsdóttir ljósmóðir.
Við afhendingu stólanna. Valgeir Ólafsson verslunarstjóri, Egill Reynisson og Gauti Reynisson, eigendur Húsgagnahallarinnar, Anna S. Vernharðsdóttir, deildarstjóri á fæðingarvakt, og Edda Sveinsdóttir ljósmóðir. Mynd/Landspítalinn
Í tilefni hálfrar aldar afmælis Húsgagnahallarinnar á árinu gáfu eigendur hennar níu La-z-boy stóla á fæðingarvakt Landspítalans nýlega.

„Fæðingarvakt Landspítalans hefur níu herbergi til afnota og við gáfum La-z-boy stól inn á hvert þeirra. Þar geta bæði verðandi mæður og þreyttir feður hvílt sig þegar stund er milli stríða og hríða,“ segir Egill Reynisson sem á Húsgagnahöllina á Bíldshöfða með bróður sínum, Gauta Reynissyni.

Egill segir nýju stólana leysa af hólmi nokkra gamla af sömu gerð sem einnig hafi verið gjöf frá Húsgagnahöllinni á sínum tíma og voru farnir að láta á sjá eftir mikla notkun.



Húsgagnahöllin var stofnuð 1965 af Jóni Hjartarsyni og var til að byrja með á Laugavegi 26. Jón byggði húsið á Bíldshöfða og þar hefur verslunin verið í áratugi. Þeir bræður tóku við henni fyrir þremur árum.

„Við vorum með Betra bak og Dorma fyrir, bættum svo Húsgagnahöllinni við árið 2012 sem enn einni rós í hnappagatið og höfum gert margt til að betrumbæta Húsgagnahöllina,“ segir Egill.

Hann segir La-z-boy stólinn eitt aðalvörumerki verslunarinnar. „Þó stóllinn hafi ekki unnið til neinna hönnunarverðlauna þá er hann vinsæll,“ segir Egill og telur að seld hafi verið um 30 þúsund stykki frá því hann kom fyrst til landsins í gegnum ameríska herinn um 1990.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×