Sport

Karlalandsliðið í fótbolta lið ársins | Heimir þjálfari ársins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/stefán/vilhelm
A-landslið karla í fótbolta var í kvöld valið lið ársins af Samtökum íþróttafréttamanna en niðurstöður kosninga þeirra voru tilkynntar við hátíðlega athöfn í Silfurbergi í Hörpu.

Íslenska liðið tryggði sér sem kunnugt er sæti í lokakeppni EM 2016 í fyrsta sinn með því að lenda í 2. sæti A-riðils í undankeppni EM.

Ísland vann þrjá af sex leikjum sínum í undankeppninni á árinu en íslensku strákarnir tryggðu sér EM-sætið með markalausu jafntefli við Kasakstan á Laugardalsvelli 6. september.

Ísland vann alls fjóra af 11 leikjum sínum á árinu, gerði fjögur jafntefli og tapaði þremur.

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta fékk 130 stig í kjörinu, eða fullt hús stiga. Þetta er í annað skiptið sem liðið hlýtur þessa viðurkenningu.

A-landslið karla í körfubolta var í 2. sæti og kvennalið Stjörnunnar í hópfimleikum í því þriðja.

Þjálfari ársins:

1. Heimir Hallgrímsson 124 stig

2. Þórir Hergeirsson 69

3. Alfreð Gíslason 18

4. Dagur Sigurðsson 12

5. Kári Garðarsson 9

6. Guðmundur Guðmundsson 1

7. Þorsteinn Halldórsson 1

Þá var Heimir Hallgrímsson, annar þjálfara karlalandsliðsins í fótbolta, valinn þjálfari ársins.

Þetta er í fyrsta sinn sem Heimir hlýtur þessa viðurkenningu en hann fékk 124 stig í kjörinu.

Næstur honum kom Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, og í 3. sæti varð Alfreð Gíslason, þjálfari Þýskalandsmeistara Kiel í handbolta.

Heimir er 48 ára Vestmannaeyingur sem hefur starfað fyrir karlalandsliðið síðan 2011, fyrst sem aðstoðarþjálfari og svo sem aðalþjálfari ásamt Lars Lagerbäck. Undir stjórn þeirra hefur íslenska liðið náð frábærum árangri og verður meðal þátttökuþjóða á EM í Frakklandi næsta sumar.

Lið ársins:

1. A-landslið karla (fótbolti) 130 stig

2. A-landslið karla (körfubolti) 51

3. Stjarnan kvenna (hópfimleikar) 28

4. Grótta kvenna (handbolti) 20

5. A-landslið kvenna (strandblak) 5




Fleiri fréttir

Sjá meira


×