Lífið

Gæludýr þingmanna í góðum höndum á gamlárskvöld

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Sigmundur Davíð og tíkin Emma á góðum degi. Athugið að myndin er samsett.
Sigmundur Davíð og tíkin Emma á góðum degi. Athugið að myndin er samsett. vísir/stefán
Mikill hávaði og ljósadýrð einkennir að jafnaði gamlársdag- og kvöld og hafa margir landsmenn gaman af því. Hins vegar er þetta oftar en ekki ansi erfiður tími fyrir blessuð dýrin, sem hræðast yfirleitt hávaðann og ljósadýrðina. Fréttablaðið ákvað að spyrja nokkra þingmenn, sem eiga gæludýr, hvernig þeir hyggjast aðstoða sín dýr, svo að þeim líði sem best á þessum erfiðu tímum fyrir dýrin.

Engin róandi lyf

„Við erum með hund af tegundinni Westie sem heitir Emma. Hún er hrædd við flugeldana og geltir á þá. Við gefum henni ekkert róandi fyrir kvöldið en ég reyni að fara með hana í langan göngutúr svo hún brenni orku og verði þreytt og líði vel líkamlega. Við skiljum hana heldur ekki eftir eina svo það er alltaf einhver hjá henni þótt farið sé út að sprengja. Oft ef taumurinn settur á hana meðan mestu lætin eru, þá fær hún þau skilaboð alveg skýr að við erum við stjórnina og þá slakar hún frekar á. Við finnum svo það herbergi sem henni líður best í og þar fær hún að vera með. Svo fær hún nóg að drekka og gott að borða til að fagna nú líka með okkur,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra spurður út í hans ráðstafanir gagnvart dýrinu.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Indý sem er 13 ára og Mirra 11 ára.
Nærvera skapar öryggistilfinningu

„Ég á tvær tíkur af tegundinni Cavalier sem heita Indý sem er 13 ára og Mirra 11 ára. Þær eru mjög ólíkar og Indý, sú eldri, sem er orðin nánast heyrnarlaus, hefur alltaf viljað hafa sem mest af fötum af heimilisfólkinu undir sér á þessum degi og koma sér fyrir í einhverju horni heimilisins en Mirra vill vera sem mest hjá okkur eða koma sér fyrir í búrinu sínu þegar mest gengur á. Þær hafa alla tíð fengið að hafa þetta eins og þær vilja og um áramót er eiginlega allt leyfilegt t.d. að vera uppi í rúmi eða í fanginu á okkur ef þær hafa viljað og alla jafna er einhver inni við hjá þeim.

Það þarf í raun hver að prófa fyrir sitt dýr hvað virkar best. Hef prófað róandi á hund sem ég átti einu sinni en fannst það ekki gera neitt fyrir hann svo ég hef ekki reynt það aftur. Nærvera einhvers fjölskyldumeðlims sem skapar öryggistilfinningu er það sem mínum hundum hefur reynst best þegar nýtt ár gengur í garð með öllum sprengingunum.“ Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.

Oddný G. Harðardóttir og Tinna sælar á svip.
Ekki hrædd við hvellina

Ég á svarta labradortík sem er kölluð Tinna. Hún er rétt rúmlega tveggja ára og hefur bara verið hjá okkur eitt gamlárskvöld. Hún er ekki hrædd við hvelli eða sprengingar. Henni fannst gaman þegar krakkarnir voru hlaupandi út og inn rétt fyrir og um miðnættið. Ég vildi ekki að hún færi út enda eru þetta ekki góðar aðstæður fyrir hunda. Við sátum því einar inni um miðnættið. Ég hækkaði í sjónvarpinu til að yfirgnæfa mesta hávaðann úti og við horfðum saman á árið 2014 hverfa og árið 2015 birtast á skjánum í kjölfarið. Við munum sennilega gera alveg það sama um þessi áramót.

Við höfum átt tvo hunda áður. Við áttum síðast hundinn Vask, sem leið mjög illa á gamlárskvöld og reyndar í aðdragandanum líka þegar ein og ein raketta fer á loft og kínverjar sprengdir af og til. Honum leið svo illa að við ákváðum að leita ráða hjá dýralækni sem skaffaði róandi pillur fyrir hann og ráðlagði okkur að sitja hjá honum í mestu látunum, hafa tónlist hátt stillta til að yfirgnæfa sprengingarnar og ljós í herberginu. Það virkaði vel á hann Vask okkar. Það er ekki gott að skilja hunda eftir eina á gamlárskvöld. Þeir þurfa á eigendum sínum að halda þegar ótti og óöryggi grípur þá í mestu látunum um áramót.“ Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Brynhildur Pétursdóttir
Passar að hafa kettina inni

„Við eigum tvo ketti, Snúð og Snældu, en Snælda flutti til Reykjavíkur fyrir stuttu og býr núna hjá mági mínum þannig að ég er um það bil að missa eignarhaldið yfir henni. Við höfum passað að hafa kettina inni á gamlárskvöld og þeir sjá alveg sjálfir um að finna sér rólegan stað einhvers staðar í kjallaranum.

Gæludýraeigendur virðast mjög meðvitaðir um að passa upp á dýrin sín á gamlárskvöld. Það er kannski frekar að ráðleggja þeim sem hafa gaman af að sprengja að takmarka stuðið við gamlárskvöld og koma þannig í veg fyrir óþarfa stress.“ Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.

Helgi Hjörvar og herra X, ásamt Helenu, sú dætra hans sem á Kiþu.Vísir/GVA
Knúsa hvort annað í gegnum þetta

„Fyrir utan sjálfan mig eru núna tvö önnur gæludýr á heimilinu. Það er leiðsöguhundurinn minn, herra X, sem er tíu ára gamall labradorhöfðingi eða um 35 kíló af hreinum kærleika. Einnig eignaðist ein dætra okkar, hún Helena 12 ára, kött í fyrra sem fékk nafnið Kiþa. Ég hef ótrúlega gaman af flugeldahríðinni en finnst skynsamlegra að fela öðrum að bera eld að púðrinu. Við búum við Landakotstúnið og þar er mikið skotið við undirleik frá tveimur dómkirkjum og skipsflautum í gömlu höfninni. Fyrstu árin hér áttum við kattarbræðurna Gísla og Eirík og síðar hina virðulegu læðu ungfrú Skottu. Á gamlárskvöld bjuggum við vel um þau í kjallaraherbergi sem er með lítinn glugga, drógum gardínur fyrir og kveiktum á útvarpi. Í fyrstu ætluðum við að hafa sama háttinn á með hundinn. Fljótlega kom þó í ljós að hann kippir sér lítið upp við flugelda og vill helst vera með fjölskyldunni við öll tilefni, enda knús besta ráðið við flestu hjá honum. Í fyrra var kötturinn Kiþa enn kettlingur og þá settum við þau hr. X saman inn í rólegt herbergi meðan mestu lætin gengu yfir, höfðum gluggann lokaðan með gardínur dregnar fyrir og lítið ljós. Það virkaði ágætlega, sérstaklega vegna þess að þá eins og oftast er einhverjum úr fjölskyldu- og vinahópnum sem hér er á gamlárskvöld lítið gefið um hávaðann og kýs notalegan félagsskap dýranna rétt á meðan.

Leiðsöguhundar eru þjálfaðir í að láta sem þeir sjái ekki ketti. Kiþa kom til okkar mjög ung og stendur líklegast í þeirri trú að hún sé líka hundur og er afar upptekin við að sýna hr. X að af þeim tveimur sé hún langtum svalari. Í ár hafa þau svo lært samvinnu. Þannig eltir læðan hundinn alltaf út á tún og þvælist jafnvel milli fótanna á honum til að sýna öðrum köttum hverfisins að þó þeir séu kannski stærri þá eigi hún þennan risastóra hund sem hún hafi alveg í vasanum. Á móti eltir hundurinn Kiþu þegar hún laumast upp á borð sem gæti verið matarbiti á sem kisa gæti mjakað fram af borðbrúninni. Líklegast er að þau kúri bara saman þessi áramótin og knúsi hvort annað í gegnum þetta.“ Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.

Lísa Bjarnadóttir, dýralæknir á Dýraspítalanum í Víðidal.
Hvernig er hægt að láta dýrinu líða sem best?

„Í raun er best að byrja að undirbúa dýrin nokkrum vikum fyrir gamlárskvöld. Þá er hægt að spila fyrir þau flugeldahljóð (hægt að finna á netinu) reglulega og þannig venjast oftast þau við. Líka er hægt að nota svokölluð ferómón sem auka á vellíðun dýranna og hefur þannig róandi áhrif á þau. Með þessu er oft hægt að koma í veg fyrir ofsahræðslu hjá dýrum sem getur skapast í mestu látunum. Hvort sem eigendur hafa náð að undirbúa dýrin eða ekki gildir alltaf að halda dýrunum inni. Aldrei að taka dýrin með sér út þegar mestu lætin ganga yfir. Hundar eiga t.d. heldur ekki erindi á brennur eða slíkt. Dragið fyrir glugga, hafið ljósin kveikt og spilið jafnvel tónlist. Mikilvægt er líka að skilja gæludýrin ekki eftir ein heima, heldur að það sé alltaf einhver hjá þeim. Halda sjálfur ró sinni og ekki gera mikið mál úr þessu, þannig dregur maður frekar úr ótta dýranna heldur en ýta undir hann.

Í sumum tilfellum þarf að gefa dýrum, þá sérstaklega hundum, róandi lyf fyrir gamlárskvöld. Þá þarf að byrja fyrr um daginn að gefa þau inn og svo jafnvel endurtekið seinna um kvöldið en það er metið í hverju tilfelli fyrir sig. Sjaldnar þarf að gefa köttum róandi lyf, þeir finna sér oftast staði sem þeir geta falið sig á.

Við gefum hvolpum eða ungum hundum nær aldrei róandi lyf þar sem við mælum með því að eigendur í raun leyfi þeim að upplifa áramótin og lætin sem þeim fylgja. Hvolpar bregðast oft mun betur við hávaðanum en eldri hundar. Svo eru líka til hundar sem hreinlega elska rakettur og hræðast hávaðann alls ekki! Sama gildir um hross á húsi. Gott er að byrgja fyrir glugga, ljósin kveikt og jafnvel hafa útvarpið á. Ég myndi ráðleggja eigendum hrossa líka að huga að þeim þegar mestu lætin eru gengin yfir, hvort allt sé ekki í lagi.“ Lísa Bjarnadóttir, dýralæknir á  Dýraspítalanum í Víðidal.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×