Handbolti

Þurfum að laga sóknina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, markadrottningin frá Selfossi.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, markadrottningin frá Selfossi. vísir/ernir
Stelpurnar okkar í íslenska handboltalandsliðinu mæta Þýskalandi í öðrum leik liðsins í undankeppni EM 2017, en sá fyrsti tapaðist gegn firnasterku liði Frakklands á fimmtudagskvöldið. Þjóðverjar eru með sterkt lið sem er vant því að vera á stórmótum.

Íslenska liðið átti fá svör við frammistöðu franska liðsins en stelpurnar og Ágúst Jóhannsson voru ekki sátt við sína eigin frammistöðu.

„Við þurfum að laga sóknarleikinn, númer eitt, tvö og þrjú. Við náðum ekki miklu flæði á boltann, létum brjóta á okkur of mikið og spiluðum illa út úr taktík,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Íslands, en Fréttablaðið heyrði í honum skömmu eftir að landsliðið lenti í Keflavík í gær.

„Við erum bara í vandræðum með að skora mörk utan af velli. Við erum ekki að skora yfir 20 mörk og þá er erfitt að vinna landsleiki í handbolta. Við reynum að finna lausnir á þessu á myndbandsfundi í kvöld og um helgina.“

Frakkland skoraði 27 mörk á móti Íslandi þrátt fyrir að varnarleikurinn væri á köflum góður. Markvarslan var ekki góð hjá íslenska liðinu enda var aðalmarkvörðurinn, Florentina Stanciu, veikur.

„Í heildina var varnarleikurinn fínn, en við verðum að fá meiri markvörslu. Flora er búin að vera veik og var í vandræðum með að vera tilbúin í leikinn og munar nú um minna. Varnarleikurinn var eitthvað til að byggja á, en það er sóknarleikurinn sem við þurfum að laga,“ segir Ágúst.

Þýska liðið komst í milliriðla á EM í fyrra en vann ekki marga leiki. Það sýndi þó styrk sinn þegar það gerði jafntefli við Frakkland.

„Þetta er bara hörkulið. Þýsku stelpurnar eru mjög hávaxnar og líkamlega sterkar. Þær eru kannski ekki jafn hraðar og þær frönsku og ekki jafn góðar maður á mann en það verður erfitt að mæta þeim. Við þurfum að spila fast á móti þeim,“ segir Ágúst sem vonast til að heimavöllurinn geti hjálpað til.

„Þýska liðið er í mikilli rútínu og er alltaf á stórmótunum. Þetta verður einfaldlega gríðarlega erfitt verkefni en við erum á heimavelli. Við þurfum að byggja sterkan heimavöll og til þess þurfum við að fá fólk á völlinn. Það eru allir leikmennirnir meðvitaðir um að við verðum að spila betur og ég hef trú á því enda voru stelpurnar óánægðar með eigin frammistöðu gegn Frakklandi. Við þurfum að eiga algjöran klassaleik til að ná góðum úrslitum á móti Þýskalandi,“ segir Ágúst.

Ágúst stýrir Víkingi í Olís-deild karla og þjálfar kvennalandsliðið samhliða því. Hann segir þetta fara vel saman og hann einbeitir sér alfarið að kvennaliðinu núna. Þetta sé ekkert lýjandi.

„Alls ekki. Ég er með frábæran aðstoðarþjálfara í Gunnari Gunnars­syni hjá Víkingi sem sér alfarið um liðið. Ég er ekkert að pæla í Víkingi akkúrat núna. Ég er með fullan fókus á stelpunum og Gunnar sér um Víkingsliðið á meðan,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×