Lífið

Fjölskyldan þrisvar fengin til að kveðja

Ásgeir Sæmundsson hafði nýverið fest kaup á nokkurs konar kraftdreka þegar hann ákvað að fara að prófa hann á túni ofan við Svignaskarð í Borgarfirði ásamt félaga sínum.

„Það voru búnar að koma nokkrar litlar vindhviður. Það var bara rosalega gaman. Þá hljóp maður með drekanum, náði stjórn á honum aftur og fór á upphafsreit,“ segir Ásgeir en fjallað er um sögu hans í sjötta þætti af Neyðarlínunni á Stöð 2 sem verður sýndur á sunnudag.

Málin tóku óvænta stefnu þegar snörp vindhviða feykti Ásgeiri á frosinn skurðbakka. Við það slasaðist hann lífshættulega því auk þess að vera með fjölda beinbrota og sködduð lungu og nýru hafði ósæðin rofnað, en rof á þessari aðalslagæð líkamans dregur flesta til dauða á slysstað vegna óstöðvandi blæðingar. Ásgeir var fluttur á Landspítalann þar sem hann lá næsta mánuðinn á gjörgæslu, en fjölskylda hans var í þrígang fengin til að koma þangað og kveðja hann hinstu kveðju.

Meðfylgjandi er stutt brot úr þættinum en í honum verður rætt við Ásgeir, vin hans Björn Óskar Einarsson félaga hans, sjúkraflutningamann, lækni, móður hans og fleiri. Þátturinn er á dagskrá á sunnudag kl. 20.05.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×