Lífið

Fyrsta rapplagið sem Andri Snær tekur þátt í

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Plötuna Hugarfar með Ara Ma & Muted má nálgast á Spotify, Youtube og á vefsíðunni http://www.muted.is/arima
Plötuna Hugarfar með Ara Ma & Muted má nálgast á Spotify, Youtube og á vefsíðunni http://www.muted.is/arima
„Svei mér þá, já...Þetta er örugglega fyrsta rapplagið sem ég tek þátt í,“ segir rithöfundurinn Andri Snær Magnason, sem átti óvænta innkomu í lagi rappsveitarinnar Ari Ma & Muted. Sveitin sendi frá sér plötuna Hugarfar í byrjun nóvembermánaðar. Ari Ma, sem sér um rappið á plötunni, segist hafa sóst nokkuð hart eftir því að fá Andra Snæ á plötuna í lag sem ber titilinn Ál, enda hafi bók hans, Draumalandið, verið honum mikill innblástur við textaskrif. „Ég hafði samband við Andra og honum leist vel á textann sem ég skrifaði um áliðnaðinn og spillinguna í kringum kárahnjúkavirkun - án þess að hafa lesið bókina Draumalandið hefði verið erfitt að skrifa textann. Hann fann frábæran texta eftir Helga Valtýsson sem dvaldi einmitt lengi í Kringilssárrana og þekkti landsvæðið sem virkjunin eyðilagði,“ útksýrir Ari.

Andlegt rapp

Yrkisefni hans vekur óneitanlega athygli. „Ef ég ætti að lýsa tónlistinni myndi ég segja að þetta væri ný tegund af rappi, andlegt rapp eða hippa-hopp,“ útskýrir Ari. „Platan fjallar um að elska sjálfan sig, hugleiðslu, hjartaorku, að eltast við draumana sína, ferðalögin mín um heiminn og íslenska náttúru,“ bætir hann við. Ari er nú kominn til þorpsins Ton Sai í Tælandi, þar sem hann hefur vetursetu. Óhætt er að segja að hann sé mjög andlega þenkjandi. Bjarni Rafn Kjartansson, eða Muted, sér um tónlistina; hann gerir taktana á plötunni. Bjarni kallar sig Muted og hefur verið að semja raftónlist frá árinu 2009. Hann er frá Egilsstöðum, en er ættaður frá Reyðarfirði, Eskifirði og Möðrudal á fjöllum.



Andri Snær Magnason tekur nú þátt í sínu fyrsta rapplagi.
Gaman að fá að vera með

Andri Snær segir gleðilegt að hafa fengið að taka þátt í þessu verkefni og er ánægður að Draumalandið hafi haft þessi áhrif á Ara. „Þetta erþað sem er skemmtilegast við listsköpun, þegar maður gerir eitthvað og upp úr því sprettur svo annarskonar list. Í rauninni er Ari búinn að þjappa Draumalandinu í eitt rapplag,“ segir Andri léttur í lundu. Honum þótti gaman að fá að vera með í verkefninu. „Ég hef alltaf verið Public Enemy aðdáandi og það hefur alltaf verið draumur að fá að vera með í rapplagi.“

Hann er hrifinn af tónlistinni sem Ari Ma & Muted gera. „Rapp fjallar ekki alltaf um innri ró. Þetta er áhugavert og öðruvísi. Ari er búinn að ferðast um allan heim og skilar því vel frá sér.“

Texti Helga passar vel við

Í laginu les Andri Snær úr ljóði Helga Valtýssonar sem er titlað Á Vesturöræfum (Forspil í dúr og moll). Honum þótti textinn passa vel við pólitíska yfirskrift lagsins. „Helgi er að tala um forfeðurnar þarna. Þetta er auðvitað maðurinn sem orti Vorvindar glaðir. Hann er fæddur 1877 og var um fertugt þegar Frostaveturinn mikli gengur í garð. Hann er af þessari kynslóð sem var undir áhrifum rómatíkurinnar og tekur hana alla leið í sínum skrifum, og má segja ungmennafélagsandinn sé sterkur. Svo springur hann út þegar hann skrifar um svæðið í kringum Kringilsána. Þetta er algjörlega texti sem sprengir öll mörk í lýsingu,“ segir Andri Snær. Ari Ma er á svipuðum slóðum og Helgi í sínum skáldskap í laginu og segir meðal annars: „Fyrirgefið forfeður, en nú er skaðinn skeður/- ef þeir reyna svona aftur - við gerum úr því veður.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×