Matur

Bakaðar bleikjubollur með steiktum hrísgrjónum

Gómsætur réttur frá Eyþóri Rúnarssyni.
Gómsætur réttur frá Eyþóri Rúnarssyni.

Sjónvarpskokkurinn Eyþór Rúnarsson gefur gómsætar og auðveldar uppskriftir í þætti sínum Eldhúsið hans Eyþórs, á Stöð 2 fram að jólum.

Bakaðar bleikjubollur með steiktum hrísgrjónum og kóríandersósu

Bleikjubollur

400 g roð- og beinlaus bleikja

1 stk. hvítlauksrif (fínt rifið)

1 tsk. sambal oelek

1 msk. pikklað engifer (fínt skorið)

1 msk. kóríander (fínt skorið)

1 ½ msk. raspur

1 msk. kókos

Sjávarsalt

Skerið bleikjuna niður í litla bita og setjið í skál með öllu hinu hráefninu og smakkið til með saltinu. Hnoðið bollur úr blöndunni (um 30 g bollur) og setjið inn í 180 gráða heitan ofninn í 6 mínútur.

Steikt hrísgrjón

2 hvítlauksgeirar (fínt skornir)

1 chili rautt (fínt skorið)

1 msk. engifer (fínt skorið)

½ box sykurbaunir

½ poki radísur

100 g smjör

400 g soðin hrísgrjón

½ bréf kóríander

2 msk. salthnetur

1 msk. sesamolía

2 msk. fiskisósa

3 msk. sojasósa

Olía til steikingar

1 stk. lime

Sjávarsalt

Svartur pipar úr kvörn

Hitið pönnu með olíu og setjið hvítlaukinn, chili-ið og engiferið á pönnuna og steikið við vægan hita. Bætið sykurbaununum og radísunum út á ásamt hrísgrjónunum og smjörinu. Hellið næst fiskisósunni, sesam­olíunni og sojasósunni út á pönnuna og bætið í lokin salthnetunum og kóríandernum út í. Smakkið til með salti og pipar ef þurfa þykir,

Kóríandersósa

2 stk. hvítlauksrif (fínt skorið)

1 stk. laukur (fínt skorinn)

1 msk. engifer (fínt skorið)

3 msk. sojasósa

3 msk. hrísgrjónaedik

1 dós kókosmjólk

2 msk. fínt skorinn kóríander

1 stk. lime

Olía til steikingar

Sjávarsalt

Svartur pipar úr kvörn

Hitið pott með olíu í og steikið laukinn, hvítlaukinn og engiferið saman þar til mjúkt í gegn. Bætið svo edikinu og sojasósunni í pottinn og látið sjóða í 2 mín. Hellið því næst kókosmjólkinni ofan í pottinn og látið sjóða í um 20 mín. Maukið blönduna með töfrasprota og smakkið til með saltinu, piparnum og safa úr einu lime. Bætið í lokin kóríander út í sósuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×