Lífið

Prófessorinn sem fann engar húðvörur sem hentuðu og bjó því til sína eigin vörur

Rikka skrifar
Guðrún Marteinsdóttir
Guðrún Marteinsdóttir vísir/Vilhelm
Nýlega kom á markað lífræn íslensk húðvörulína sem líffræðingurinn og prófessorinn Guðrún Marteinsdóttir stendur á bakvið. Hún segist hafa fundið sig knúna til að búa til þessa vörulínu þar sem hún fann hvergi húðvörur sem henni hentuðu og voru þar að auki án rotvarnarefna og allra eiturefna. En hver er Guðrún Marteinsdóttir og hvernig verður ein lítil hugmynd að húð­vörulínu?

„Ég ætlaði mér aldrei að fara í fiskifræði heldur hafði ég áhuga á að fara í listnám. Ég var búin með hluta af námi í líffræði í Háskóla Íslands þegar ég kynntist manninum mínum en hann var á leið í nám til Bandaríkjanna,“ segir Guðrún. Eftir stutta umhugsun ákvað hún að elta manninn sinn til New Jersey og sótti þar um inngöngu í listnám.

„Ég var búin að finna listaskóla, Mason Cross School of Art, sem mér leist vel á og undirbjó öll þau gögn sem þurfti, þetta var á þeim tíma sem tölvur voru ekki við lýði. Við þurftum að fá námslán og ég skrifaði LÍN bréf til að athuga hvort það væri ekki í lagi að ég skipti um námssvið en fékk þau svör að það væri ekki svo.“

Guðrún stóð þarna á tímamótum og sá fram á að leggja listnámið á hilluna og halda áfram á þeirri braut sem hún hafði valið sér, líffræði. „Það verður til þess að ég tek meistara- og doktorspróf í fiskifræði sem verður svo mitt lífsstarf, það var sem sagt Lánasjóður íslenskra námsmanna sem tók ákvörðun um mína framtíð,“ segir Guðrún og hlær.

Hér er Kristberg að pakka Taramar-vörunum.
Eftir að Guðrún flutti heim á ný setti hún upp rannsóknarstofu í erfðafræði fyrir Veiðimálastofnun og hóf svo störf hjá Hafrannsóknarstofnun þar sem hún vann í tíu ár. „Ég hef mikið verið að rannsaka þorskinn og hvernig best er að viðhalda stofninum og kenni þau fræði í Háskóla Ísland þar sem ég starfa sem prófessor í dag.“

Þrátt fyrir að Guðrún hafi ekki fetað listabrautina finnur hún sig knúna til að skapa og vinna með höndunum. „Meðfram námi og vinnu hef ég alltaf verið að búa eitthvað til og á lager af öllu sem tengist listsköpun. Ég á til að mynda allt til olíumálningar, vatnslitamálningar, útskurðar og silkimálningar, ég hef mikla þörf fyrir að eiga það sem þarf til að skapa og kannski tengist þetta því sem ég er að fást við í dag á vissan hátt.“

Ástandið alvarlegt

Fyrir um áratug fór Guðrún alvarlega að huga að innihaldsefnum í andlitskremum enda mikil umræða í heiminum um alls kyns óæskileg efni sem sum hver voru jafnvel talin geta stuðlað að krabbameini og hormónatengdum sjúkdómum.

„Þarna var ég nýorðin fimmtug og farin að sjá breytingar á andlitinu eins og gerist við eðlilega öldrun en átti erfitt með að finna andlitskrem sem hentuðu þar sem ég er með viðkvæma húð. Ég þoldi hreinlega ekkert sem var í boði á þessum tíma.“

Guðrún sökkti sér ofan í efnafræðina á bak við þær vörur sem voru á markaði og komst að því eftir því sem hún las fleiri innihaldslýsingar hversu alvarlegt ástandið var. „Þetta var svo miklu alvarlega en mig grunaði, þarna var verið að nota efni sem eru langt frá því að vera í lagi, til að mynda ýmiss konar rotvarnar­efni sem eru formalín­tengd og þar af leiðandi talin geta stuðlað að krabbameini. Formalín er til dæmist notað í málningu og til þess að verja lífræn efni frá rotnun. Fram til þessa hefur eftir­lit með húðvörum verið frekar slakt í heiminum en er sem betur fer að herðast. Á þeim tíma sem ég sökkti mér í þessi vísindi þá voru snyrtivörur skilgreindar sem vara sem færi bara á húðina en ekki inn í líkamann og ef húðin þyldi kremin þá væri varan stimpluð í lagi.“

Þar til nýlega voru paraben-rotvarnarefni notuð í margar algengar snyrtivörur en í dag hafa mörg fyrirtæki hætt að nota þau. „Parabenefni hafa fundist í krabbameinsæxlum en ekki hefur enn tekist að sanna að efnið eitt og sér sé krabbameinsvaldur, það er aftur á móti ekki gott að efni safnist fyrir í frumum af hvaða ástæðum sem það er.“

Eftir því sem að Guðrún las sér til meira um innihaldsefni varð hún hreinlega reiðari yfir því hversu algeng þessi efni eru á hverju heimili. „Ég velti því fyrir mér hvort það væri virkilega ekki hægt að finna betri efni en þessi, mér fannst fáránleg tilhugsun að ég væri að bera á mig efni í andlitið sem eru til dæmis notuð í húsamálningu. Sagt er að hjá konum sem nota mikið húð- og snyrtivörur séu tvö til þrjú kíló af efnum tekin upp af líkamanum á hverju ári í gegnum húðina og hluti af þeim safnist fyrir. Það er óhugnanlegt að hugsa til þess en samt í rauninni svo eðlilegt að flestir sem lesa aftan á snyrtivörur gefast upp á einhverjum tímapunkti þar sem að nöfnin eru oft flókin og treysta í blindni á framleiðendur og eftirlitsaðila.“

Hjónin ásamt Hlín dóttur sinni.
Varan sem vantaði

Með allar þessar upplýsingar í farteskinu ákvað Guðrún að prófa sig áfram og búa til sínar eigin húðvörur. „Ég bjó til ótrúlega einfalt smyrsli úr rósavatni, olíu og vaxi og notaði þetta lengi. Smyrslið varð vinsælt hjá blásturshljóðfæraleikurum,“ segir hún og hlær. „Þeir verða að nota einhvern áburð og höfðu margir átt í erfiðleikum með að finna einhvern án eiturefna.“

Áhugi Guðrúnar á gerð eitur­efnalausra húðvara jókst og áður en hún vissi af var heimilið undirlagt og orðið að eins konar rannsóknarstofu. „Fjölskyldan var nú ekkert allt of hrifin af þessu uppátæki þannig að ég sótti um að fá rannsóknar­stofu í Háskólanum. Þarna fór ég að vinna meira með íslenskar jurtir og þara. Ég eyddi miklum tíma í að vinna með svokölluð ýruefni en þau binda saman vatn og olíu og stjórna því hvernig áferð verður á kreminu. Mörg húðvörufyrirtæki kaupa þessa blöndnu tilbúna, ég skil það vel svona eftir á en galdurinn við kremframleiðslu felst m.a. í ýruninni og því finnst mér mikilvægt að vinna allt frá grunni, einnig til þess að vita nákvæmlega hvað er í kremunum.Á þessum tíma varð það sem má kalla peptíðsprenging en peptíð eru litlar prótíneiningar og þarna var búið að finna leið til þess að fá einingarnar til að hafa áhrif á kollagenþræðina og m.a. strekkja á þeim með þeim afleiðingum að það sléttist úr húðinni. Sum peptíð vinna betur á fínum línum á meðan önnur vinna til að mynda betur á djúpum hrukkum. Tækninni fleygir fram en þarna var það sama upp á teningnum og áður. Í framleiðslu á snyrtivörum þar sem þessi tækni var nýtt var að finna peptíð sem voru örugg fyrir líkamann en líka peptíð sem lítið var vitað um langtímaáhrif frá, t.d. sum sem draga úr taugaboðum í húðinni líkt og bótox.“

Upp frá þessu byrjar að mótast frekar sú hugmynd að búa til húðvörur sem í raun og veru virka og hafa sjáan­leg áhrif á húð en eru á sama tíma án allra eiturefna, eftir nánari skoðun sá ég að þetta var vara sem vantaði á markaðinn og myndi hafa ákveðna sérstöðu hvað þetta varðar,“ segir Guðrún.

Guðrún og Kristberg á göngu í Lóni.
Draumurinn rættist

Guðrún er gift Kristbergi Kristbergssyni, prófessor í matvælafræði en hrein tilviljun varð til þess að rannsóknir sem Kristberg hafði verið að vinna að urðu hluti af húðvörunum. „Þar sem mig vantaði smá aðstoð við að sækja um rannsóknarstyrki þá bað ég manninn minn um að lesa yfir og bæta um betur. Þá fórum við að tala meira saman um hvað hann og samstarfsaðilar hans við HÍ og HR eru að gera og þá kemur í ljós að þeir eru með mjög áhugaverða nálgun á aðferð sem verið er að nota í krabbameinsrannsóknum þar sem notast er við lifandi frumulíkön. 

Ég fer að hugsa hvort ekki sé hægt að nota þessa aðferð fyrir þörunga og í framhaldi fyrir húðvörulínuna. Við sækjum um styrk í Skötuselssjóðinn til frekari rannsókna sem við svo fengum og þar rúllaði boltinn af stað,“ segir hún. „Í stuttu máli mætti segja að þessi aðferð gerði okkur kleift að sannprófa virkni þörunganna innan í lifandi frumum og auka skilning okkar á hvernig þessi ferli vinna, m.a. til að draga úr oxun og bólgum. Með þessari rannsókn erum við að fá dýpri skilning á andoxunarefnum og hvað þau gera í raun og veru inni í frumunum sjálfum og hvernig við getum nýtt þessa þekkingu í kremunum.“ 

Eftir sleitulausar rannsóknir og endalausa vinnu eru húðvörurnar nú loksins komnar á markað og fengu þær hið fallega nafn Taramar. „Ég er mjög tengd náttúrunni og finnst að allt sem ég geri þurfi að tengjast henni. Tara er Alheimsmóðirin, gyðja umhyggju og samkenndar og er einnig tengd við sjó eins og mar. Mér finnst mikill kraftur í þessu nafni og jákvæð orka. Mér fannst lógóið okkar líka þurfa að endurspegla þennan kraft og ég vildi hafa eitthvað þrennt í því, allt er þegar þrennt er,“ segir Guðrún og hlær og bætir við að lógóið sé eins og mandala sem fléttast saman endalaust.

Í dag eru vöruliðirnir þrír en þeir eru hreinsiolía, dagkrem og serum en til stendur að setja næturkrem á markað eftir jólin. Það er augljóst að Guðrún hefur mikla ástríðu fyrir því sem hún er að gera og vandar hvert skref sem tekið er á leiðinni. Draumur hennar um hina fullkomnu húðvöru sem er uppbyggjandi, inniheldur engin rotvarnarefni né innihaldsefni sem ekki má leggja sér til munns hefur ræst og verður fróðlegt að sjá hvað kemur frá okkar konu í nánustu framtíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×