Lífið

Hallgrími Helgasyni var nauðgað: „Þetta var orðið eins og sveskjusteinn í sálinni“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hallgrímur Helgason.
Hallgrímur Helgason. Vísir/Valli
Hallgrímur Helgason segir frá því í nýjustu bók sinni, Sjóveikur í München, að honum hafi verið nauðgað af ókunnugum manni í Þýskalandi þegar hann var 22 ára og nemi í Listaakademíunni í München.

Þetta kemur fram í ítarlegu viðtalið við rithöfundinn í Fréttatímanum í dag. Hann segir það hafa tekið mikið á að skrifa þessa bók en hann geri sér grein fyrir því að án þessarar reynslu í München væri hann ekki sá listamaður sem hann er í dag.

„Um suma kafla fékk ég þau komment frá yfirlesurum að þeir væru ekki nógu sannfærandi, þá hafði ég ekki þorað að fara alla leið inn í gamlan sársauka. Það var einkum í kafla sem lýsir nauðgun, en það er nú eitt af því sem gerist á lífsleiðinni að manni er nauðgað af ókunnugum manni í erlendri borg. Þetta kom fyrir mig þennan vetur og á endanum varð ég að lýsa því bara í bókinni eins og það gerðist.“

Hann segist hafa læst atvikið svo djúpt inni í lífsins skáp að skúffan hafi nánast verið ryðguð föst.

„Þetta var orðið eins og sveskjusteinn í sálinni sem var orðinn svo glerharður að ég þurfti virkilega að taka öllu mínu til að ná að leysa hann upp svo hann gæti gengið niður af mér.“ 

Hallgrímur segist í viðtalinu vera að opinbera sjálfan sig. „Ég hef allavega aldrei skrifað um eigin ævi áður, svo þetta er nýtt fyrir mér og vonandi fleirum, og líka erfitt á annan hátt en áður sem og fyrir aðra kannski.“

Fjölskylda hans fékk að lesa yfir bókina áður en hann hefur helst áhyggjur af börnunum sínum sem eru á tíunda og tólfta aldursári í dag. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×