Lífið

Semballinn verður í forgrunni

Kammersveitin var á æfingu fyrir stóru stundina á morgun en gaf sér tíma til að stilla sér upp í myndatöku. 
Fréttablaðið/Ernir
Kammersveitin var á æfingu fyrir stóru stundina á morgun en gaf sér tíma til að stilla sér upp í myndatöku. Fréttablaðið/Ernir
„Okkur langaði að prófa að fara aftur í gömlu hlýlegu kirkjuna okkar, Áskirkju,“ segir Rut Ingólfsdóttir fiðluleikari þegar hún er spurð út í jólatónleika Kammersveitar Reykjavíkur á morgun, 20. desember klukkan 17. Hún segir dagskrána glæsilega í ár og nefnir þar sérstaklega Brandenborgarkonsert númer 5 eftir Bach. Efnisskráin markist af því að ákveðið hafi verið að bjóða Jeremy Josph, sembal- og orgelleikara, hingað frá Vín. „Við vildum fá hann til að koma fram sem einleikara og svo leyfðum við honum líka að ráða hvaða verk yrðu valin,“ segir Rut og lýsir dagskránni nánar. „Við spilum tvö verk eftir Bach þar sem semballinn er alveg í forgrunni, konsert fyrir fiðlu, flautu og sembal, þar sem semballinn er aðalhljóðfærið og svo Brandenborgarkonsertinn númer fimm og þar er flott sembalsóló. Með þessu valdi Joseph verk eftir þrjú tónskáld sem bjuggu í Austurríki, kannski af því hann býr sjálfur í Vínarborg. Þau voru aðeins á undan Bach í tíma og hann ber höfuð og herðar yfir þau. En þetta er mjög skemmtilegt prógramm og hann er frábær þessi ungi  maður. Rut tekur fram að þær Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari og Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari séu einnig einleikarar á tónleikunum og láti sitt ekki eftir liggja. En hefur Jeremy Joseph komið áður hingað til lands?  „Nei, þetta er í fyrsta skipti sem hann kemur. Hann var í námi í Lubech í Þýskalandi á sama tíma og Hrafnkell Orri Egilsson, sellóleikari í kammersveitinni, og það er í gegnum Hrafnkel sem við fáum hann hingað. Það er mjög gaman.“ gun@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×