Lífið

Dularfullir tónleikar grímuklæddra

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Shades of Reykjavik, DJ Flugvél og Geimskip og Shades of Reykjavík.
Shades of Reykjavik, DJ Flugvél og Geimskip og Shades of Reykjavík. Fréttablaðið/Ernir
Jólatónleikar DJ Flugvélar og geimskip, Shades of Reykjavík og Vaginaboys verða haldnir á Húrra klukkan níu í kvöld. Þeir eru þó ekki með hefðbundnu sniði, enda engin kammersveit að sögn Steinunnar Harðardóttur, betur þekktrar sem DJ Flugvél og geimskip.

„Ég þekki strákana ekki neitt, en ég og vinir mínir hlustum alltaf á þáttinn hjá Shades of Reykjavík í partíum og svona. Þannig að ég var ekki lengi að hugsa mig um,“ segir Steinunn.

Shades of Reykjavík er fjöllistahópur, stofnaður árið 2011. Hópurinn samanstendur af röppurum, tónlistarmönnum, leikstjórum og skeiturum sem sameinast í tónlist og öðrum listformum, en halda úti vinsælum útvarpsþætti á FM Xtra. Umsjónarmenn þáttarins eru Prins Puffin og Elli Grill, sem hafa gert garðinn frægan með rapptónlist og útvarpsmennsku.

Steinunn kemur með leynigest. En hversu mikið vill hún gefa upp um gestinn?

„Þetta eru jólatónleikar, þannig að ég verð auðvitað að vera með leynigest. Ég veit ekki alveg hversu mikið ég get sagt án þess að gefa það upp hreinlega, en við getum orðað það sem svo að ég og leynigesturinn munum pottþétt koma öllum í jólaskap.“

Tónleikarnir í kvöld eru einkar dularfullir, því auk leynigestarins spilar elektrósveitin The Vaginaboys. Sveitin er þekkt fyrir að klæðast grímum þegar þeir koma fram. Þeir vilja ekki þekkjast. Grímurnar segja þeir tilkomnar vegna þess að þeir séu ekki í tónlist til þess að verða frægir – heldur af ástríðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×