Kassim Doumbia, miðvörður FH, tryggði FH jafntefli með marki í uppbótartíma, en Blikar höfðu komist yfir með marki Arnþórs Ara Atlasonar.
Heimir hló, aðspurður hvort Arnar Grétarsson hefði snúið á hann í leiknum, og játaði sig sigraðan þar sem alltaf væri búið að lesa FH-liðið ef það tapaði leik.
Hann sagðist ekkert pirraður yfir umræðunni um FH-liðið í heild sinni, en Heimir er pirraður yfir umræðunni sem skapaðist um fagn Doumbia.
Miðvörðurinn hljóp að myndavél Stöðvar 2 Sports og öskraði: „Fuck off“. Framkvæmdastjóri KSÍ mun skoða atvikið betur.
Hjörvar Hafliðason, sparkspekingur Pepsi-markanna, vakti fyrstur athygli á þessu á Twitter-síðu sinni í gærkvöldi og hann er ekki ofarlega á vinsældarlista Heimis í dag.

„Það fer í taugarnar á mér þegar hann er að tjá sig á Twitter um eitt og annað og um leikina.“
„Eins og með Kassim í gærkvöldi. Menn sem gera sig út sem einhverja sérfræðinga og eru að tala um þetta í sjónvarpi eiga ekki að vera að tjá sig um þessa hluti á Twitter og láta frá sér hluti eins og voru gerðir í gærkvöldi.“
„Þetta er bara stormur í tebolla. Ef að Kassim Doumbia talaði íslensku og hefði sagt djöfullinn eða andskotinn þá hefði enginn sagt neitt.“
„Við erum með kynslóð af ungu fólki sem horfir á tónlistarmyndbönd og annað þar sem þessi orð koma alltaf fram.“
„Því finnst mér þegar menn eru að gera sig út sem sérfræðinga í einhverjum hlutum eiga þeir stundum að hafa vit á því að hafa munninn lokaðan,“ sagði Heimir.
Aðspurður hvort Doumbia hefði ekki frekar mátt sleppa því að öskra þessi orð í myndavélina svaraði Heimir:
„Hvernig er talað inn á fótboltvelli og á hliðarlínunni? Kassim Doumbia talar ekki íslensku. Hann er, eins og menn vita, mikill tilfinningamaður. Eina sem hann gerði var að sýna tilfinningar fyrir utan að hann var besti maðurinn á vellinum.“