Handbolti

Florentina fór illa með hornamenn Gróttu í gær

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Florentina var í miklum ham í gær.
Florentina var í miklum ham í gær. vísir/stefán
Florentina Stanciu, markvörður Stjörnunnar, átti góðan leik þegar Garðbæingar jöfnuðu metin í úrslitaeinvíginu gegn Gróttu með fjögurra marka sigri, 23-19, í öðrum leik liðanna í Mýrinni í gær.

Florentina varði alls 16 skot í leiknum, eða 47% þeirra skota sem hún fékk á sig.

Íslenski landsliðsmarkvörðurinn reyndist hornamönnum Gróttu sérstaklega erfiður ljár í þúfu en þeir virtust hafa takmarkaða trú á að þeir gætu skorað framhjá þessum frábæra markverði.

Þeir fjórir hornamenn Gróttu sem spreyttu sig í leiknum skoruðu aðeins þrjú mörk úr 13 skotum. Tvö skot þeirra fóru í tréverkið, eitt yfir en Florentina varði hin sjö. Skotnýting hornamanna Gróttu í leiknum var aðeins 23,1%.

Ásthildur Embla átti erfitt uppdráttar í gær líkt og aðrir hornamenn Gróttu.vísir/þórdís
Florentina varði þrjú af fjórum skotum Arndísar Maríu Erlingsdóttir en hún fann sig vel í fyrsta leiknum á þriðjudaginn og skoraði þá fjögur mörk úr fimm skotum.

Guðný Hjaltadóttir skoraði eitt mark en Florentina varði hin tvö skotin sem hún tók en þau komu bæði eftir að hún leysti inn á línu.

Florentina varði tvö skot frá Þórunni Friðriksdóttur, hún skaut einu sinni yfir og skoraði eitt mark.

Landsliðsmarkvörðurinn varði annað af tveimur skotum Ásthildar Emblu Friðgeirsdóttur en þær Þórunn skipti hægri hornamannsstöðunni með sér í gær í fjarveru Karólínu Bæhrenz Lárudóttur sem tognaði aftan í læri í fyrsta leiknum og verður að öllum líkindum ekki meira með í úrslitakeppninni.

Florentina varði með m.ö.o. sjö af 13 skotum hornamanna Gróttu í gær, eða 53,8%.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×