Lífið

Mið-Ísland á Akureyri og Dóri fer á bílnum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér sést grínhópurinn Mið-Ísland með bandaríska grínistanum Fred Armisen sem kom hingað til lands í síðasta mánuði.
Hér sést grínhópurinn Mið-Ísland með bandaríska grínistanum Fred Armisen sem kom hingað til lands í síðasta mánuði.
„Já, Dóri ætlar að leggja af stað fyrstur og keyra með Magneu eiginkonu sinni,“ segir Björn Bragi Arnarson grínisti. Grínhópurinn Mið-Ísland kemur fram í Hofi á Akureyri í kvöld og sýnir Áfram Mið-Ísland! Hópurinn hefur ferðast nokkuð um landið en slíkt getur verið erfitt, sökum flughræðslu Dóra. „Í síðasta skiptið sem við fórum út á land skemmtum við í Neskaupstað. Það var útlit fyrir að Dóri færi hreinlega ekki með,“ útskýrir Björn Bragi og rifjar upp hreint lygilega atburðarás. „Dóri sendi okkur tölvupóst morguninn sem við áttum að fljúga og sagðist vera með hita. Okkur þótti líklegt að hann væri ekki að segja satt.“

Félagarnir í hópnum mættu fyrir utan íbúð Dóra og komust að því að hann var þá á fundi úti í bæ. „Við Jóhann Alfreð keyrðum um bæinn í leit að Dóra,“ segir Björn Bragi. En að lokum fannst hann og þeir drógu hann upp í vél. „Þetta er svo fyndið með Dóra. Hann kvíðir því auðvitað að fljúga en svo hellist þetta bara einhvern veginn yfir hann.“

Annars segist Björn Bragi hlakka til kvöldsins, en hópurinn þurfti að bæta við aukasýningu í Hofi í kvöld, sökum ásóknar í miða á fyrri sýninguna sem hefst klukkan 20. Sú síðari hefst klukkan 23. „Við elskum Akureyri. Þetta er þriðja árið sem við komum fram í Hofi og við kunnum mjög vel við okkur. Þorsteinn Guðmundsson kemur með, en hann kom líka með okkur í fyrra.“

Segja má að Þjóðleikhúskjallarinn sé heimavöllur Mið-Íslands, en hópurinn hélt síðustu sýninguna af Áfram Mið-Ísland! á dögunum. „Þetta gekk rosalega vel. Við héldum 60 sýningar og gestafjöldinn fór yfir tíu þúsund. Að sjálfsögðu er hópurinn glaður og þakklátur fyrir það. Sýningar Mið-Íslands eru að verða að föstum lið í leikhúsárinu.“

Sýningarnar í Hofi í kvöld eru tvær. Sú fyrri hefst klukkan 20 og sú síðari klukkan 23. Hægt er að nálgast miða á midi.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×