Lífið

Já, jólin eru handan við hornið

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Já, já, já jólin eru handan við hornið.
Já, já, já jólin eru handan við hornið.
Undanfarin ár hefur jólavertíðin orðið sífellt lengri hér á landi. Í vikunni mátti heyra fyrstu auglýsingarnar um jólatónleika ársins og er fjöldi fólks á leið í jólaferðir erlendis, enda innan við hundrað dagar til jóla. Auglýsingar sem tengjast jólunum virðast fara í taugarnar á einhverjum, ef marka má viðbrögð á samfélagsmiðlum; sumum finnst verið að lengja jólin um of. En auðvitað eru aðrir sem eru hlynntir þessari þróun og vilja jólin sem fyrst.

Pakkasöfnun Kringlunnar er vinsæl.
Styttist í hangikjötið 

Þeir sem vilja taka jólin snemma geta bráðlega gætt sér á hangikjöti í veitingastað IKEA. „Jólin hefjast 15. október hjá okkur,“ segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA og heldur áfram: „Við erum löngu búin að plana jólin og alla uppsetninguna. Margar jólavörur eru komnar í hús og aðrar eru á leiðinni.“ IKEA hefur undanfarin ár verið einna fyrst með jólin hér á landi. „Þetta er bara stemning. Við erum með massífa dagskrá, bakstur í búðinni og mikla gleði. Til dæmis geta börn, og aðrir sem vilja, fengið mynd af sér með jólasveinunum. Það byrjar eftir sex vikur. Svo höldum við líka upp á Thanks Giving á veitingastaðnum okkar með kalkúni, sem er ótrúlega vinsælt.“ Þórarinn segir að enginn í IKEA fái nóg af jólunum, þrátt fyrir að þau byrji svona snemma í búðinni. „Nei, þetta er svo gaman. Er hægt að fá leið á jólunum?“

Vilja ekki byrja of snemma

Eins og maður lærði á unga aldri er fólkt ólíkt og með ólíkar áherslur. Sama á greinilega við um verslanir og verslunarmiðstöðvar. Jólin koma á mismunandi tíma í verslunarmiðstöðvar landsins. Hluti af jólaundirbúningi margra er að fara í Kringluna á aðventunni. Þar á bæ er þess gætt að byrja ekki of snemma, segir Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar. „Við byrjum yfirleitt í kringum aðventuna, kannski eitthvað aðeins fyrr. Við viljum ekki byrja of snemma og leggjum áherslu á að hafa bara dásamlegan desember. Það er hægur uppgangur hjá okkur í skreytingunum og svo fer allt á fullt eftir að við kveikjum á jólatrénu okkar á fyrsta sunnudegi aðventu.“ Baldvina segir að mikið sé lagt upp úr því að fólk njóti þess að vera í Kringlunni fyrir jólin. „Við viljum að það sé eftirsóknarvert að koma til okkar og við vitum að það er stór hluti jólaundirbúnings margra að versla í Kringlunni. Við finnum líka fyrir því hvað margir njóta þess að taka þátt í pakkasöfnuninni okkar. Margar fjölskyldur kaupa alltaf eina auka gjöf og sem fer til Mæðrastyrksnefndar. Það er nánast bara eins og kaupa hangikjötið.“ Semsagt, í Kringlunni er keppst við að byrja ekki of snemma, þó að kaupmenn sjálfir skreyti sínar búðir eftir eigin vilja.

Mikið er um að vera á aðventunni, í Smáralind.
Nóvember lykilmánuður

Í Smáralind er byrjað að skreyta í nóvember og segir Guðrún Margrét Örnólfsdóttir, markaðsstjóri Smáralindar að það sé mikil vinna að skreyta stærstu verslunarmiðstöð landsins. „Okkur finnst mikilvægt að skreyta þetta fallega hús og hafa það hátíðlegt. Þetta er auðvitað margra vikna vinna, en er algjörlega þess virði. Byrjað er að skreyta húsið snemma í nóvember og það er komin endanleg mynd á það í seinni hluta mánaðarins.“ Eins í Kringlunni hafa kaupmennirnir sinn eigin hátt á skreytingum sinna verslanna. Guðrún segir að mikil stemning verði í Smáralind í aðdraganda jólanna. „Við erum með reglulegar uppákomur alla aðventuna. Hvort sem er fyrir börn eða fullorðna. Þetta eru mishátíðlegar uppákomur, en það verður mikið líf hjá okkur fyrir jólin.“

Beðið eftir jólatónleikum

Í Markaðinum, sem fylgdi Fréttablaðinu í gær, kemur fram að miðar á alla sex jólatónleika Baggalúts hafi selst upp á klukkustund. Gert er ráð fyrir að tónleikum sveitarinnar verði fjölgað talsvert, en í fyrra hélt hún þrettán tónleika og verður svipað upp á teningnum í ár, að sögn Garðars Þorsteins Guðgeirssonar, stjórnarformanns Baggalúts. Ef marka má auglýsingar geta jólabörn landsins valið úr fjölda tónleika. Ein reynslumesta stjarna íslensku jólanna, Helga Möller söngkona, segist skilja vel að auglýsendur séu farnir að auglýsa fyrr. „Farmboðið er orðið alveg ótrúlega mikið,“ segir hún en bætir við: „Margir fá sig fullsadda af auglýsingum vissra tónleika og það getur haft öfug áhrif. Þess vegna er oft gott að bíða aðeins og koma með eitthvað nýtt og ferkst inn á markaðinn.“ Helga er sjálf að syngja á mörgum minni jólatónleikum í ár, auk jólahlaðborða og jólaballa. Hún kemur einnig fram á jólatónleikum Norðurljósa í Hofi á Akureyri.

Friðrik Ómar gefur út jólaplötu í ár.
Jólin að sumri til

Tónlistarmenn sem gefa út jólatónlist þurfa að geta sett sig í jólagírinn á hinum ótrúlegustu tímum. Friðrik Ómar söngvari gefur út jólaplötu fyrir þessi jól og hefur verið að vinna í plötunni á árinu. „Það hefur ekki verið mikið mál að setja sig í gírinn. Veðrið er búið að vera svo leiðinlegt,“ segir söngvarinn hlæjandi og heldur áfram: „Nei, auðvitað er þetta alltaf svolítið spes. Maður tengir lögin við stundir sem maður á um jólin og það getur verið skrítið að taka þau upp að sumri til. En það er annað hvort þetta eða að taka plöturnar upp með árs fyrirvara. Friðrik segir hina ótrúlegustu hluti veita honum innblástur við að semja jólalög. Til dæmis ræða Katrínar Jakobsdóttur í eldhúsdagsumræðunum á þingi, fyrr í mánuðinum. „Ræðan hennar Kötu var svo frábær. Þegar ég heyrði ræðuna fór ég að semja. Lagið heitir Leiðin liggur heim og ég er ótrúlega ánæðgur með það.“

Helga Möller, jólastjarna Íslendinga, byrjar að skreyta fyrsta sunnudag í aðventu.
Byrjar að skreyta á aðventunni

Ljóst er að jólin eru handan við hornið. Búast má við fleiri auglýsingum fyrir jólatónleika, jólahlaðborð og öllu sem tilheyrir jólaundirbúningnum. Jólaskraut fer bráðum að sjást í verslunum landsins, hvort sem fólki líkar betur eða verr. Segja má að jólastjarnan Helga Möller taki Kringluna á þetta, því hún byrjar að skreyta á fyrsta sunndegi í aðventu. „Èg fæ aldrei nóg af jólunum en þau hafa vissulega breyst með árunum. Í dag er ég ekki að þrífa upp um alla veggi og smákökubakstur er nánast horfinn úr mínu jólahaldi. Aðal ástæðan er sú að fólkið mitt er ekkert mikið fyrir þetta og flestar lenda þær á rassinum á mér.Eins skreyti ég ekki eins mikið lengur. Jólin hjá mér hafa líka lengi snúist um að syngja jólin inn í hjörtu fólks og það er mín besta jólaupplifun.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×