Lífið

Toppurinn að eiga afmæli þennan dag

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Það er ekki aðeins frelsarinn sjálfur sem á afmæli á aðfangadag. Fjölmargir Íslendingar eru fæddir þennan dag sem er kannski óvenjulegur afmælisdagur að mörgu leyti. 

Ruth Einarsdóttir
„Að eiga afmæli 24. desember er toppurinn. Allir skreyta og setja upp jólatré, allir fá pakka á afmælinu mínu. Það eru meira að segja jólasveinar,“ segir Ruth Einarsdóttir sem kann því aldeilis ekki illa að eiga afmæli á sjálfan aðfangadag.

„Það hefur aldrei pirrað mig að eiga afmæli á degi frelsarans. Þvert á móti finnst mér það dásamlegt og fólk man alltaf eftir afmælinu mínu. Það besta er auðvitað gleðin og kærleikurinn sem að einkennir þennan dag,“ segir hún.

„Þegar ég var yngri hélt ég alltaf að jólin væru haldin vegna þess að ég ætti afmæli, ekkert sjálfhverft við það,“ segir Ruth og skellir upp úr.

Þegar hún var yngri var alltaf haldið upp á afmælið hennar. „Það var alltaf haldið upp á afmælið mitt í hádeginu á aðfangadag þegar ég var lítil. Í gegnum tíðina hef ég alveg hent í afmæli og þá í kringum 24 des. Hélt þó upp á fertugsafmælið á hádegi aðfangadags.“

Sum desember börn segja það leiðinlegasta við að eiga afmæli nálægt jólum sé að þá sjái fólk sé stundum leik á borði og hefi sameiginlega jóla og afmælisgjöf. Það hefur þó ekki verið vandamál í tilfelli Ruthar. „Móðir mín setti reglu um að það mætti ekki gefa mér sameiginlega jóla- og afmælisgjöf, það þorir enginn að storka henni enauðvitað hefur það komið fyrir og engin að æsa sig yfir því enda allir glaðir á aðfangadag.“

Geffroey
„Það tók mig smá tíma að skilja til fullnustu hvernig það er að eiga afmæli á aðfangadag," segir Geoffrey Þór Huntington-Williams. Í dag er hann nokkuð sáttur við að eiga afmæli þennan dag en það var ekki alltaf svo.

„Ég til dæmis þóttist í nokkur ár æsku minnar eiga afmæli 8. ágúst. Eitthvað sem ég sagði bara og vatt uppá sig. Mér fannst leiðinlegt að þurfa að útskýra fyrir hinum krökkunum heila klabbið. Ég man ekki alveg hvernig ég kom mér útúr þeirri flækju. Kannski það séu einhverjir sem halda ennþá að ég eigi afmæli þá? Annars kenndi það mér snemma að skilgreina hvernig það er að gefa og þiggja að eiga afmæli þennan dag,“ segir hann um afmælisdaginn.  

Hann segist hafa verið duglegur að halda upp á afmælið sitt undanfarin ár. „Ég hélt uppá það núna um helgina ásamt tveimur vinum mínum, ég hef vanalega haldið veislu á Þorlák en ákvað að klára þetta fyrr núna.“

Geoffrey segir flesta muna eftir afmælisdeginum, sérstaklega eftir að Facebook kom til sögunnar. „Ég á góða vini og fjölskyldu sem muna eftir mér. Við höldum líka jólin að enskum sið, sumsé á jóladagsmorgun, sem hjálpar aðstæðum. En þeim sem þykir vænst um mann gera náttúrulega uppúr því að hafa daginn sem bestan fyrir mig.“

„Fólkið í mínu lífi þarf að bíta í það súra epli að geta ekki sofið almennilega út á aðfangadag þar sem það er mæting stundvíslega klukkan 11:00, enda fátt betra en að starta þessum degi með heitu súkkulaði og tilheyrandi kruðeríi. Það hefur alltaf verið og mun ekkert breytast, þetta ein af þessum hefðum,” segir Guðjón Ólafsson sem er fæddur á aðfangadag árið 1989.

Guðjón er þríburi og það var því mikill spenningur fyrir þessum degi á heimili hans. „Það var vissulega spenningur og hann byrjaði yfirleitt í byrjun september. Að eiga afmæli á þessum degi sem barn ýtti bara meira undir tilhlökkunina, hvað þá að við vorum þrjú, við æstum hvort annað bara upp. Það kom mér allavega ekkert voðalega mikið á óvart að gráu hárin hjá foreldrum okkar létu sjá sig kannski 3-4 árum fyrr en venjulega gerist,” segir hann kíminn.

Guðjón segir það stundum hafa pirrað sig að eiga afmæli á þessum degi. „Guð já, þegar maður er lítill þá snúast jólin einungis um pakka,það er  staðreynd, hvað þá þegar maður fær bara pakka einu sinni á ári. Ég man að það var alltaf ákveðinn skellur þegar skyldmenni okkar komu með einn pakka og svo fylgdi setninginn “þetta er bæði afmælis og jólapakki, þú ræður hvort þú opnar hann núna eða í kvöld”, ég hugsaði alltaf “ertu ekki að grínast? gastu ekki bara komið með tvo? Ég er nokkuð viss um að aðrir sem deila þessum degi með mér tengja við þetta,“ segir hann hlæjandi.

„En svo þegar maður eldist og þroskast þá skipta pakkarnir náttúrulega engu máli, og það er án efa ekkert sem pirrar mig við að eiga afmæli á þessum degi.“

Guðjón segir það besta við afmælisdaginn vera að það sé gestagangur allan dagnn. „Maður er ekkert beint að bíða eftir kvöldinu, heldur er allur dagurinn dagskrá. Svo er það bara punkturinn yfir i-ið þetta hefðbundna sem byrjar klukkan 18:00 á flestum heimilum landsins. Það er í raun ekkert vont við að eiga afmæli þennan dag, nema náttúrulega þegar maður var lítill, þá var það pakka dæmið. Ég myndi allavega ekki vilja eiga afmæli á neinum öðrum degi. Ég væri kannski til í að prófa það einu sinni en alls ekki oftar.“

Guðjón.
„Það er nú bara nokkuð gaman að eiga afmæli þennan dag og gefur deginum aukið vægi. Það er ekki slæmt að vera aðal prinsessan á þessum degi,“ segir Sigurlaug Pétursdóttir.

Á afmælisdeginum kíkja ættingjar við. „Það er alltaf til eitthvað með kaffinu yfir daginn og ættingjar og vinir hafa verið dugleg að halda í þá hefð að líta við í tilefni dagsins.“

Sigurlaug segir það ekki hafa pirrað sig að eiga afmæli þennan dag. „Þvert á móti og ég var alltaf frekar ánægð með þessa athygli sem fylgdi deginum þegar ég var yngri, eiginlega soldið montin bara,“ segir hún og tekur fram að flestir muni eftir afmælinu.

„Ég held að fólki finnist jafnvel dálítið skrítið að eiga afmæli þann 24. svo það eru fæstir sem gleyma því. Oft slær fólk tvær flugur í einu höggi og sendir mér afmæliskveðju í jólakortunum. Pabba tókst reyndar að gleyma honum einu sinni,“ segir hún hlæjandi.

Sigurlaug segir það hafa komið fyrir að hún hafi fengið sameiginlegar jóla og afmælisgjafir. „Mamma vill ekki viðurkenna að það hafi komið fyrir, gjöfin hafi þá allavega verið mjög stór.“

Sigurlaug segist sjá fleiri kosti en galla við að eiga afmæli þennan dag. „Það er gaman að geta alltaf haldið í þá hefð að hafa afmæliskaffi á afmælisdeginum sjálfum. Þá eru meiri líkur að maður hitti vini sína við gott tilefni og þeir geta gengið að veitingum vísum á þessum degi. En á móti kemur að maður hefur minni möguleika á að gera alvöru partý í kringum afmælið nema þá löngu síðar þegar allir eru komnir í aðhald. Einhverntímann hefði ég sagt að það væri réttur að fá að sofa út á afmælinu sínu en í seinni tíð er það aldrei möguleiki þegar eru komin börn og við farin að halda jólin sem fjölskylda.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×