Lífið

Eiginkona Robin Williams segir hann hafa verið haldinn Lewy-sjúkdóminum

Birgir Olgeirsson skrifar
Susan og Robin Williams
Susan og Robin Williams Vísir/Getty
Eiginkona leikarans heitna Robin Williams segir þunglyndi aðeins hafa verið einn af fjölmörgum kvillum sem glímdi við. Tímaritið People birtir fyrsta viðtali við Susan Williams frá því að eiginmaður hennar fyrirfór sér fyrir einu ári.

„Við skulum segja að þunglyndi hafi verið eitt af fimmtíu einkennum hans og það var ekki það alvarlegasta,“ segir Susan en krufning á líki Robins leiddi í ljós að hann var haldinn Lewy-sjúkdóminum sem er ólæknandi heilabilunarsjúkdómur og er talinn næst algengasta orsök heilabilunar á eftir Alsheimer. Lewy-sjúkdómurinn getur valdið ofskynjunum, minnisleysi og skertri hreyfigetu.

Nokkrum mánuðum fyrir andlát hans höfðu einkenni sjúkdómsins ágerst og mátti leikarinn þola kvíðaköst og átti erfitt með alla hreyfingu.

Skömmu eftir andlát hans greindi talsmaður Robins Williams frá því að leikarinn hefði glímt við þunglyndi. Susan sendi frá stutta yfirlýsingu en neitaði að tjá sig frekar um andlát eiginmanns síns.

„Ég veit núna að læknarnir og allt teymið reyndu hvað þeir gátu til að berjast gegn þessum sjúkdómi. Málið er að þessi sjúkdómur var stærri og sneggri en við áttuðum okkur á,“ segir Susan við People.

„Síðastliðið ár hef ég reynt að komast að því hvað varð Robin að bana. Til að skilja hvað við vorum að berjast við. Einn af læknunum hans sagði: „Robin var meðvitaður um að hann væri að tapa vitinu og það væri ekkert sem hann gæti gert í því.""

Susan segist ætla að vekja athygli á þessu sjúkdómi í þeirri von að athygli samfélagsins beinist að honum og það muni leiða til þess að lækning standi til boða þeim sem þjást af honum í náinni framtíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×