Handbolti

Held alltaf með Íslandi gegn Svíþjóð

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kristján í leik með Íslandi á ÓL í Aþenu árið 2004.
Kristján í leik með Íslandi á ÓL í Aþenu árið 2004. vísir/teitur
Þjálfari sænska félagsins Guif, Kristján Andrésson, býst við hörkuleik á milli Íslands og Svíþjóðar í kvöld.

„Þessi leikur mun snúast um vörn og markvörslu. Líkt og Svíar verðum við að fá vörnina í gang og hraðaupphlaupin með," segir Kristján við Vísi en hann segir Svía vera með betri vörn og markvörslu en Ísland með betra sóknarlið.

„Það verður erfitt fyrir Svía að glíma við Aron Pálmarsson og fleiri í toppformi. Mikið mun þó velta á vörninni og Ísland verður að fá vörn og markvörslu."

Kim Andersson verður sem fyrr í lykilhlutverki hjá Svíum en Kristján segir í lagi að leyfa honum að leika lausum hala á meðan Ísland stöðvi aðra leikmenn.

„Svíar eru með frábæran markvörð í Mattias Andersson og þegar hann ver þá ber Kim Andersson venjulega upp boltann. Það þarf að stöðva. Svíar eru með unga menn í vinstri skyttustöðunni og það er í fínu lagi að leyfa Andersson að skora átta mörk á meðan Ísland stöðvar hina í sókninni."

Kristján segir Svía bjartsýna fyrir mótið og nokkuð sigurvissa fyrir leikinn gegn Íslandi.

„Svíar eru mjög bjartsýnir. Þeir hafa mestar áhyggjur af Frökkum í riðlinum og stefna á annað sætið. Þetta er fyrir mér úrslitaleikur um annað sætið í þessum riðli."

Kristján er Íslendingur en uppalinn í Svíþjóð þar sem hann býr. Hann segir íslensku ræturnar vera sterkar.

„Auðvitað er ég Íslendingur. Þegar leikurinn hefst fer ég í íslenska landsliðstreyju og horfi á leikinn. Ég held auðvitað líka með Svíum en þegar þessar þjóðir mætast þá held ég alltaf með Íslandi."

Ekki missa af neinu sem gerist á HM. Fylgdu Vísi á Twitter, Facebook og Snapchat (notendanafn: sport365).


Tengdar fréttir

Aron: Getum allt á góðum degi

Ísland mætir Svíþjóð í fyrsta leik sínum á HM í handbolta í Doha í Katar í kvöld. Aron Kristjánsson er tilbúinn með leikáætlun en segir að þó svo að leikurinn sé mikilvægur sé hann ekki endastöð.

Ísland fær brasilíska dómara í kvöld

Það verður væntanlega hart tekist á þegar Ísland og Svíþjóð mætast á HM í kvöld og það kemur í hlut dómara frá Brasilíu að hafa stjórn á hlutunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×